Friðrik Ingi: "Engir óskamótherjar í undanúrslitum."
Grindvíkingar unnu sannfærandi sigur á Hamri/Selfossi í Lýsingarbikar karla í gærdag, 74-97.
Jafnræði var með liðunum framan af leik en Grindvíkingar tóku afgerandi forystu í öðrum elikhluta. Þá small varnarleikurinn og eftir það var sigurinn aldrei í mikilli hættu.
"Við mættum reiðubúnir til leiks", sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga í samtali við Víkurfréttir. "Það var ekkert vanmat í gangi hjá okkur því það hefur sýnt sig að allt getur gerst í þessari deild ef maður er ekki með hugann við efnið. Við stefndum að því að halda aftur af Clifton Cook en um leið að gleyma ekki félögum hans og það gekk upp."
Friðrik segist ekki hafa neina óskamótherja í undanúrslitunum. "Það er alveg sama hvernig leikirnir fara. Í undanúrslitunum verða fjögur lið sem öll eru gríðarlega sterk á sinn hátt. Þannig tekur maður bara því sem höndum ber."