Friðrik hættir með Grindavík
Friðrik Ragnarsson hefur ákveðið að hætta sem þjálfari Grindavíkurliðsins í körfubolta en hann hefur stýrt Grindavík undanfarin fjögur ár. Samningur Friðriks við liðið var útrunninn. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar vildi endurnýja samninginn en Friðrik ekki, samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu UMFG. Þar segir einnig að starfslok Friðriks séu í mesta bróðerni.
,,Um leið og Stjórn kkd. UMFG þakkar Friðriki fyrir samstarfið óskar hún honum alls hins besta í framtíðinni. Friðrik er að mati stjórninnar einn hæfasti þjálfari landsins og þótt titlarnir hafi látið á sér standa vorum við oft á tíðum ansi nærri þeim og spiluðum skemmtilegan körfubolta. Vonast er til að nýr þjálfari verði ráðinn sem fyrst sem byggir liðið upp að nýju en sem fyrr er takmarkið alltaf sett í hæstu hæðir," segir í tilkynningu frá körfuknattleiksdeildinni.