Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Friðrik: Gerum okkur seka um einbeitingarleysi
Mánudagur 6. október 2008 kl. 12:31

Friðrik: Gerum okkur seka um einbeitingarleysi

„Þetta var frábær körfuboltaleikur og alls enginnl haustbragur á þessum leik. Sigurinn féll þeirra megin, en hann hefði alveg eins getað endað okkar megin,“ sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, í leikslok í gær eftir að Grindvíkingar höfðu tapað gegn KR í úrslitum Powerade-bikarsins, 98-95. KR tryggði sér sigurinn með ævintýralegum hætti, en Jason Dourisseau setti niður þriggja stig skot þegar leiktíminn var u.þ.b. að renna út. Friðrik telur að deildin eigi eftir að verða firnasterk í vetur.

„Það eru mörg lið búin að ná sér í sterka leikmenn og að fá svona leik í þessum gæðum gefur góð fyrirheit fyrir tímabilið sem er að hefjast. Bæði lið ætluðu sér sigur í dag og þetta eru mjög áþekk lið að getu. Ég held að leikir þessara liða eigi eftir að verða hreinasta skemmtun fyrir leikmenn og áhorfendur,“ sagði Friðrik, sem var tiltölulega ánægður með spilamennsku liðsins í leiknum.

„Við vorum að gera margt gott í þessum leik. Við gerum okkur samt sekan um einbeitingarleysi í lokin sem kostaði okkur leikinn. Liðið var að spila ágætlega þó að það hafi verið örlitlir hnökrar í sóknarleiknum á tímabili. Það er mjög eðlilegt á þessum tímapunkti, en við höfum nú tíu daga til að undirbúa okkur fyrir deildina og ætlum að nota þann tíma vel. Við þurfum að laga varnarleikinn og það gengur ekki að lið séu að skora 98 stig gegn okkur. Við eigum að halda liðum í kringum 80 stig, takist okkur það þá munum við vinna marga leiki í vetur,“ sagði Friðrik að lokum.

VF-MYND/JJK: Friðrik Ragnarsson var svekktur með að hafa ekki unnið úrslitaleikinn um Powerade-bikarinn í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024