Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Friðjón Einarsson nýr formaður GS
Mjög gópð mæting var á aðalfundinn en yfir 40 manns mættu í golfskálann. VF-mynd/pket.
Föstudagur 13. desember 2013 kl. 16:50

Friðjón Einarsson nýr formaður GS

Ágætur rekstur Golfklúbbs Suðurnesja þó veður hafi ekki verið hagstætt sl. sumar.

Friðjón Einarsson er nýr formaður Golfklúbbs Suðurnesja en aðalfundur klúbbsins var haldinn í vikunni. Hann tekur við af Sigurði Garðarssyni sem lætur af embætti eftir fimm ár.

Friðjón var ekki viðstaddur þegar hann var kosinn á fundinum þar sem hann var hjá syni sínum og eiginkonu í Reading í Englandi. Sonur hans æfir knattspyrnu með enska félaginu í samnefndum bæ.
„Ég vil þakka það traust og þann heiður sem mér er sýndur með þessu kjöri og ég lofa því að ég mun gera mitt besta í því að halda áfram því góða starfi sem hér hefur verið unnið undir forystu Sigurðar Garðarssonar,“ sagði Friðjón í tölvupósti sem lesinn var upp á aðalfundinum.

Á fundinum kom fram að rekstur GS hafi verið á ágætum málum þó svo tekjur hafi dregist nokkuð saman en þá gerðist það líka gjaldamegin. Reksturinn var því réttu megin við núllið og hagnaður um 2,5 milljónir kr.

„Golfárið sem nú er að baki var gott golfár að mörgu leyti, þar sem starfsmenn og sjálfboðaliðar
GS stóðu fyrir meira en 50 skráðum golfviðburðum. Þar á meðal voru a.m.k. 4 stórir
golfviðburðir fyrir GSÍ eins og t.d. KPMG bikarinn, Eimskipsmótaröðin, Sveitakeppni GSÍ 1. deild kvenna og Íslandsmót unglinga,“ sagði Sigurður Garðarsson, fráfarandi formaður GS m.a. í skýrslu stjórnar. Hann sagði félagsstarf í klúbbnum gott og félagar væru duglegir að taka þátt í sjálfboðastarfi sem fylgir miklu mótahaldi.
Golfíþróttin hefur átt undir högg að sækja meðal barna og unglinga og GS hefur ekki farið varhluta af því. Reynt hefur verið að laða ungmenni á golfvöllinn og á næsta ári verður til að mynda ókeypis fyrir 14 ára og yngri að ganga í klúbbinn.

Auk Sigurðar gekk Páll Ketilsson, varaformaður, út úr stjórn og Gylfi Kristinsson sem var í varastjórn hætti einnig. Þeir komu með Sigurði inn í stjórn fyrir fimm árum síðan. Auk Friðjóns kom Jón Ingi Ægisson nýr inn í stjórn og Guðmundur R. Hallgrímsson í varastjórn.

GS verður 50 ára á næsta ári og verður tímamótunum fagnað með veglegum hætti.

Hér má sjá skýrslu stjórnar GS fyrir árið 2013 í heild.

Ný stjórn GS er þannig skipuð:

Friðjón Einarsson formaður
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jón Ingi Ægisson
Karitas Sigurvinsdóttir
Hafdís Ævarsdóttir
Davíð Viðarsson
Þröstur Ástþórsson

Varastjórn
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson
Örn Ævar Hjartarsson
Hilmar Björgvinsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður Garðarsson flutti skýrslu stjórnar í síðasta sinn eftir fimm ára formennsku. Starfið í klúbbnum er gott og rekstur hans í ágætum málum.

Það er við hæfi að sýna þessa mynd af Friðjóni Einarssyni, nýjum formanni GS þegar hann var í viðtali hjá VF fyrir einhverju síðan, með mynd af Hólmsvelli í Leiru í baksýn.