Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Friðarkyndillinn í Reykjanesbæ í dag
Miðvikudagur 6. júlí 2011 kl. 16:59

Friðarkyndillinn í Reykjanesbæ í dag

Í gær lögðu 20 hlauparar frá 13 þjóðlöndum upp í tveggja vikna og 2700 km ferð sína með logandi friðarkyndil umhverfis Ísland og var opnunarathöfnin á Seltjarnarnesi. Tilgangurinn er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli.

Hlaupararnir voru staddir í Reykjanesbæ í dag og heimsóttu Sport og ævintýraskóla UMFN. Krakkarnir tóku vel á móti hlaupurunum og brugðið var á leik og hlauparar kynntu sín heimalönd fyrir krökkunum en þeir koma víðsvegar að úr heiminum. Andrési Þórarni Eyjólfssyni hjá sport og ævintýraskólanum var um leið afhent orða fyrir starf sitt til íþróttamála og ungmennastarfs í Reykjanesbæ. Andrés vissi ekkert um málið og var hrærður og hissa yfir þessu öllu saman.

Friðarhlaupið (World Harmony Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning. Friðarhlaupið hóf göngu sína árið 1987 og hefur nú verið hlaupið í rúmlega 100 löndum síðustu 24 árin.

Það er alþjóðlegt lið sjálfboðaliða sem skipuleggur og sér um að hlaupa með kyndilinn á milli landa. Fólk á öllum aldri og af öllum stéttum og stigum tekur þátt í Friðarhlaupinu hvar sem það stingur niður fæti.

Í ár verður hlaupið hringinn í kringum Ísland, 5.-22. júlí, en þá munu 20 hlauparar frá 13 þjóðlöndum hlaupa með Friðarkyndilinn.

Mynd: Andrés heldur hér á friðarkyndlinum en krakkarnir hlupu stuttan hring með hlaupurunum.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024