Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fríar sætaferðir í Laugardalinn
Föstudagur 21. september 2007 kl. 09:50

Fríar sætaferðir í Laugardalinn

Nú styttist óðfluga í VISA bikarúrslitaleik Keflavíkur og KR í kvennaflokki en leikurinn fer fram á Laugardalsvelli á morgun kl. 16:00. Bæði lið ætla að hita vel upp fyrir leikinn sem og stuðningsmenn félaganna. K-Húsið í Keflavík mun opna stundvíslega kl. 13:00 á morgun þar sem boðið verður upp á andlitsmálun og Pumasveitin mun koma hópnum í góðan gír.

 

Boðið verður upp á sætaferðir frá K-Húsinu og inn í Laugardal og leggja rúturnar af stað kl. 14:30. Frítt er í rúturnar í boði Sparisjóðsins í Keflavík, Reykjanesbæjar, Nesprýðis, Saltvers og Hitaveitu Suðurnesja.

 

Miðaverð á leikinn fyrir 17 ára og eldri er kr. 1000 en 16 ára og yngri fá frítt inn í boði VISA. Miðaverð fyrir Visa korthafa er 800 kr. Miðasala á leikdegi stendur frá kl. 15:00. Heiðursgestur á Laugardalsvelli á morgun verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra. Dómari leiksins verður Sævar Jónsson.

 

Blaðamannafundur fyrir úrslitaleikinn fór fram í höfuðstöðvum KSÍ í gærdag þar sem fyrirliðar og þjálfarar liðanna ræddu leikinn framundan og undirbúning liðsins. Þar sagði Salih Heimir Porcha, þjálfari Keflavíkur, að vonast yrði til þess að sóknarmaðurinn Guðný Petrína Þórðardóttir gæti verið með í leiknum á morgun. Guðný hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu en hefur æft með Keflavík í vikunni. Það kemur í ljós síðar í dag eða snemma á morgun hvort Guðný verði með í leiknum.

 

Bikarkeppni kvenna hófst árið 1981 en síðan þá hefur KR unnið bikarinn tvívegis en Keflavík aldrei. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu hjá RÚV og kom það fram á blaðamannafundinum í gær í fyrirspurn blaðamanns frá DV hvort leikurinn yrði allur sýndur. Ekki ósanngjörn spurning frá DV mönnum þar sem það hefur áður gerst að RÚV hefur klippt á beina útsendingu fyrir fréttir. Forysta KSÍ sem varð til svara sagðist vonast til þess að ekki yrði klippt á leikinn af RÚV en gaf þó engin loforð. Þetta málþóf var þó meira í léttum dúr því þar sem leikurinn hefst kl. 16:00 ætti útsendingu næsta víst að ljúka áður en að fréttum kemur.

 

Stuðningsmenn Keflavíkur fá aðsetur í Norðurenda stóru stúkunnar á Laugardalsvelli en stuðningsmenn KR verða í Suðurendanum. Fólk er hvatt til að fjölmenna á leikinn og styðja rækilega við bakið á sínum liðum.

 

VF-Myndir/ Jón Björn, [email protected]Frá blaðamannafundi KSÍ og VISA í gærdag.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024