Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Freyja fyrsti einkaþjálfarinn í Aalesund
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 11:19

Freyja fyrsti einkaþjálfarinn í Aalesund

Fitnesskonan Freyja Sigurðardóttir er búsett í Aalesund í Noregi um þessar mundir ásamt kærasta sínum og knattspyrnumanninum Haraldi Frey Guðmundssyni en Haraldur leikur með Aalesund í norsku 1. deildinni.

Freyja er þegar byrjuð að æfa fyrir Íslandsmótið í Fitness en það fer fram í byrjun október á þessu ári. „Ég æfi alla daga en það verður ekki fyrr en í byrjun júlí sem ég fer að æfa 2-3 sinnum á dag,“ sagði Freyja sem kann vel við sig í appelsínugula fótboltabænum Aalesund. „Ég fer líklega til Arúba í Karabískahafinu í sumar að keppa þar í þrautafitness og þá fer Magnús Ver með okkur líkt og í fyrra. Þar mun ég keppa fyrir Íslands hönd ásamt öðrum stelpum,“ sagði Freyja sem reyndar er á meðal frumkvöðla í norska bænum Aalesund. „Ég var fyrst til þess að byrja með einkaþjálfun hér í Aalesund, hér eru einkaþjálfarar en þeir eru meira svona leiðbeinendur í sal, eins og einkaþjálfarar voru í kringum 1999 heima á Íslandi,“ sagði Freyja en henni fannst þetta nokkuð skondið.

„Viðbrögðin við einkaþjálfun hafa verið góð hérna en tungumálið er aðeins að flækjast fyrir, þetta er svona blanda af norsku, íslensku og ensku sem ég er að tala en það stendur til bóta þar sem ég sit norskunámskeið þessa dagana,“ sagði Freyja að lokum en hún á líkast til eftir að koma sterk inn í Íslandsmótið í Fitness eftir stranga þjálfun í Noregi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024