Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frelsið það besta við hjólreiðar
Hópur nemenda úr Garði og Sandgerði, ásamt Þorvaldi, að gera sig tilbúin fyrir hjólaferð að Hvalsneskirkju.
Mánudagur 30. maí 2016 kl. 06:00

Frelsið það besta við hjólreiðar

- Víkurfréttir kíktu á æfingu hjá Hjólakrafti

„Þetta gengur út á það að fá krakka út að leika. Að reyna að nýta þessa orku sem fólk á til að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt,“ segir Þorvaldur Daníelsson, frumkvöðull hjá Hjólakrafti. Hann stofnaði samtökin Hjólakraft fyrir nokkrum árum og býður nú upp á reiðhjólaæfingar fyrir ungmenni á nokkrum stöðum á landinu. Víkurfréttir hittu hressan hóp hjólreiðagarpa úr Sandgerði og Garði á dögunum en sameiginlegar æfingar fyrir elstu nemendur skóla bæjarfélaganna hófust fyrr í vor.

Þorvaldur keyrir á milli bæjarfélaga á æfingar og hefur með sér nokkur „racer“ hjól sem krakkarnir hjóla á. Starfið hjá Hjólakrafti hefur vaxið á undanförnum mánuðum og er núna boðið upp á æfingar á höfuðborgarsvæðinu, í Grindavík, Selfossi og á Egilsstöðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorvaldur kemur á æfingu með nokkur „racer“ hjól.

Hjólin verkfæri til að komast úr hjólförunum
Þorvaldur segir starfið hjá Hjólakrafti ekki aðeins ganga út á það að hjóla, heldur séu hjólin verkfæri fyrir svo margt annað. „Hjólreiðarnar eru góðar til að koma sér upp úr hjólförunum sem fólk er stundum fast í. Við erum öll með einhvers konar lífsmynstur og stundum þarf að brjóta það upp. Ég held að hjólið sé mjög heppileg leið til þess. Svo erum við að spjalla um daginn og veginn, eins og gengur,“ segir hann.

Það kostar sitt að fara af stað með frumkvöðlastarf eins og Hjólakraft enda töluvert af búnaði sem til þarf. Þorvaldur segir það ganga upp og ofan að fjármagna starfsemina. „Þetta kemst langt á góðum vilja. Þetta er eins og annað frumkvöðlastarf, maður getur ekki verið á launum framan af. Ég hef þó fulla trú á að þetta gangi upp og treysti á guð og lukkuna.“

Hjólakraftur fjölmennir í WOW Cyclothon
Hjólreiðakappar úr Hjólakrafti hafa verið duglegir að taka þátt í hjólreiðakeppnum og er stefnan tekin á að allt að 18 lið frá Hjólakrafti taki þátt í WOW Cyclothon í sumar. Þorvaldur kveðst þó hafa verið í bjartsýniskasti þegar hann skráði þann fjölda liða til keppni en allt stefnir í að liðin frá Hjólakrafti verði 15 til 18 og í liðunum verða bæði börn að hjóla og fullorðnir fylgdarmenn. „Það eru þó einhverjir foreldrar orðnir leiðir á grámanum hérna heima og vilja fara til útlanda í sólina og eru jafnvel búnir að panta ferðir á sama tíma og WOW Cyclothon verður haldið. Ég hef heyrt af krökkum sem beita öllum bellibrögðum heima til að fá fríinu hnikað,“ segir Þorvaldur léttur í lund.

Þorvaldur hjólar töluvert í starfi sínu sem hjólaþjálfari hjá Hjólakrafti og því var ekki úr vegi að spyrja hann hvað það er við hjólreiðarnar sem er svo skemmtilegt. „Það er þessi frelsistilfinning. Maður er svo ótrúlega frjáls á hjólinu og engum háður,“ segir Þorvaldur og bætir við að hann hafi lesið það einhvern tíma í bók að ástæðan fyrir því að börn hafi svo gaman af hjólreiðum sé sú að á hjólinu fari þau í fyrsta sinn ein í burtu úr augsýn foreldra sinna. „Um leið og þau eru búin að ná valdi á þessu geta þau farið fyrir húshornið og látið sig pínu hverfa. Það er sú tilfinning sem við sækjum öll í á einhverjum tímapunkti. Það er það sem gefur þessu gildi.“

Vilja hjóla sem lengst á æfingum

Elísabet Helga Jónsdóttir er nemendi í 9. bekk í Grunnskóla Sandgerðis og mikill hjólagarpur. Hún mætir á æfingar hjá Hjólakrafti og hefur gaman af og segir það heillandi við hjólreiðarnar að upplifa náttúruna á annan hátt en gangandi. Hún hjólaði ekki mikið áður en er nú farin að hjóla reglulega. Hún segir það misjafnt hversu langt hópurinn hjólar á æfingum. „Það fer eftir því hvað við höfum mikinn tíma og hvert við viljum hjóla. Við reynum að hafa æfingarnar sem lengstar, eins og um daginn þegar við hjóluðum 30 kílómetra,“ segir hún. Í sumar ætlar Elísabet að taka þátt í mótum og stefnir meðal annars að því að hjóla Gullhringinn sem er keppni sem hefst á Laugarvatni.