Frans með sigurmark uppbótatíma
Keflavík og Leiknir mættust í Breiðholti í kvöld í sextándu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Leiknismenn, sem eru í fallsæti, þurftu á stigum að halda en það voru Keflvíkingar sem höfðu betur með marki frá Frans Elvarssyni í uppbótartíma. Með sigrinum hefur Keflavík sætaskipti við Fram og er nú í sjöunda sæti Bestu deildarinnar.
Það voru Keflvíkingar sem voru hættulegri í fyrri hálfleik og Ástralinn Joey Gibbs var nálægt því að skora eftir um korters leik þegar hann átti bylmingsskot í teignum en boltinn hafnaði í stönginni og heimamenn sluppu með skrekkinn.
Fyrri hálfleikur var kominn í uppbótatíma þegar Nacho Heras sótti hornspyrnu fyrir Keflavík en úr henni varð ekkert. Keflavík sótti á ný og nú átti Nacho góða sendingu fyrir mark Leiknis, beint á kollinn á Patrik Johannesen sem skallaði í markið og kom Keflavík í forystu (45'+3).
Leiknismenn jöfnuðu leikinn fljótlega í seinni hálfleik (61') og voru nærri því að ná forystu skömmu síðar en Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, varði þá vel.
Skömmu fyrir leikslok fékk Adam Ægir Pálsson dauðafæri eftir góða stungusendingu en hann gaf sér aðeins of mikinn tíma í að klára skotið og varnarmaður Leiknis komst fyrir boltann.
Það var allt farið að líta út fyrir jafntefli en á fyrstu mínútu uppbótatíma fékk Frans Elvarsson óvænt boltann frá varnarmanni Leiknis inni í teig heimamanna og hann þakkaði pent fyrir sig með marki (90'+1) sem tryggði Keflavík öll stigin.