Frábært tækifæri fyrir mig til að bæta mig sem körfuboltamann
Keflvíski körfuboltamaðurinn Ragnar Gerald Albertsson í góðum gír hjá Hetti í vetur.
Ragnar Gerald Albertsson er ungur körfuboltamaður sem hafði spilað með Keflavík allan sinn feril í yngri flokkum og nokkur ár í meistaraflokki áður en hann tók þá ákvörðun að flytjast austur á Egilsstaði til að spila með 1. deildarliði Hattar í vetur. Ragnar, sem er 22 ára, spilaði stórt hlutverk með liðinu og skoraði rúmlega 12 stig í leik í vetur auk þess að spila að meðaltali um 31 mínútu í hverjum leik. Liðið tryggði sér sæti í úrvalsdeild með því að vinna 1. deildina nokkuð örugglega og ákváðum við að slá á þráðinn til Ragnars og spyrja hann aðeins út í körfuna og lífið á Egilsstöðum.
Hvað varð til þess að þú ákveður að söðla um og flytja til Egilsstaða til að spila körfubolta?
Mér fannst þetta frábært tækifæri fyrir mig til að bæta mig sem körfuboltamann. Einnig fannst mér það betra skref fyrir mig að taka að mér stærra hlutverk i minna liði heldur en að vera kannski ekki að fá jafnmargar mínútur í stærra liði.
Hvernig hefur veturinn verið fyrir þig, bæði körfuboltalega séð sem og utan körfuboltans?
Týpískur dagur hjá mér er frekar venjulegur. Ég vakna, fer í vinnuna og eftir það bara beint á æfingu. Svo tek ég því bara rólega á kvöldin þar sem liðið hittist stundum og gerir eitthvað skemmtilegt. Svo spila ég stundum Fifa við Viðar (þjálfara) en hann á aldrei möguleika í mig.
Hvernig er samfélagið í kringum körfuboltann á Egilsstöðum? Finnið þið fyrir miklum meðbyr?
Á þeim tíma sem ég hef veið hérna þá hef ég séð að það er mjög mikill áhugi fyrir körfunni. Stjórnin hérna er mjög virk og hjálpsöm og það hefur verið mjög góð mæting á leikina okkar.
Var þetta eitthvað sem þér finnst þú hafa þurft á að halda?
Já mér fannst ég þurfa á breytingum að halda bæði í körfunni og utan hennar. Þetta var pínu áhætta sem ég tók því að ég þekkti engan hérna og var ekki viss hvernig það yrði að búa hér einn, en þetta er bara búið að vera mjög skemmtilegt og mjög góð reynsla fyrir mig.
Nú vinnið þið 1. deildina nokkuð örugglega og farið beint upp í úrvalsdeild að ári. Var þetta markmið sem að þið settuð ykkur fyrir mót eða kom þessi árangur liðinu á óvart?
Við settum okkur markmið í byrjun vetrar að enda í efstu þremur sætunum en þegar leið á tímabilið þá sáum við að fyrsta sætið var mjög raunhæfur möguleiki fyrir okkur. Þá var markmiðum okkar breytt í að vinna titilinn.
Viðar Hafsteinsson er ungur þjálfari Hattar. Hvernig berðu hann saman við t.d. Sigurð Ingimundarson sem þjálfaði þig hjá Keflavík. Er mikill munur á þjálfunaraðferðum í 1. deild og úrvalsdeild ef við berum saman þessa tvo?
Þó að Viðar sé ungur þjálfari þá finnst mér hann stjórna liðinu vel og heldur góðum móral innan liðsins eins og Siggi gerir einnig vel. Aðalmunurinn á þeim er auðvitað reynslan sem að Siggi hefur auðvitað vininnginn í. Annars fann ég ekki fyrir miklum breytingum þó að ég væri að stíga skref niður um deild.
Þú ert sonur Alberts Óskarssonar, sem átti farsælan feril sem leikmaður Keflavíkur-hraðlestarinnar. Finnurðu fyrir pressu frá almenningi að ná sömu hæðum og pabbi þinn í sportinu?
Nei eiginlega ekki, en stundum er maður minntur á hversu góður hann var. Sem leikmaður finnst mér oft erfitt að bera mig saman við hann því að við erum mjög ólíkir leikmenn. Hann hefur samt lengi verið góð fyrirmynd fyrir mig og pressan kemur yfirleitt frá sjálfum mér að reyna að ná jafnlangt og ef ekki lengra en hann gerði.
Hvernig blasir áframhaldið við þér? Stendur til að taka slaginn með Hetti að ári?
Eins og er þá er ekki alveg ljóst hvar ég verð næsta vetur. Planið er að reyna að komast út í skóla og nota körfuna til að mennta mig betur. Ef það gengur ekki upp þá er góður möguleiki á að ég verði hér aftur á næsta tímabili.
Ein klassísk í lokin, sérðu fram á að snúa aftur í Keflavíkurbúninginn?
Já það gerist alveg örugglega einhvern tímann, en ég held að það verði ekki strax. Núna eru aðrir hlutir sem ég vill prófa heldur en að fara aftur í Keflavík. En ég held að það snúi allir aftur heim á einhverjum tímapunkti.