Frábært ár hjá sundfólki ÍRB
ÍRB náði nýjum hæðum í sundlauginni þetta árið. Á AMÍ var ÍRB með yfirburði og vann með 1749 stigum en næst á eftir komu Fjölnir með 959 stig og Ægir með 829. Sundmenn ÍRB voru með hæsta hlutfall bestu tíma eða 85% og er það hæsta hlutfall bestu tíma hjá nokkru liði á öllum Íslandsmeistaramótum sem skráð eru síðustu 6 ár.
Á tímabilinu 2011/2012 náði ÍRB einnig 14 sundmönnum í landslið, það er 8 fleiri en á tímabilinu á undan. Á tímabilinu 2011/2012 voru 7 sundmenn sem náðu 13 Íslandsmetum í aldursflokkum og einu Íslandsmeti í opnum flokki.
Árni Már Árnason lenti í 31. sæti á Ólympíuleikunum í London með sterku sundi en besti árangur hans á árinu var á Mare Nostrum í Canet þar sem hann varð í 4. sæti og bætti Íslandsmet sitt í 50 m skriðsundi. Árni keppti einnig á Evrópumeistaramótinu og var Íslandsmeistari á ÍM50 í 50 og 100 m skriðsundi og 50 m bringusundi.
Íris Ósk Hilmarsdóttir átti afar tilkomumikið ár. Hún stimplaði sig inn á toppinn í íslensku baksundi þegar hún vann brons á Íslandsmeistaramótinu aðeins 13 ára gömul, vann gull í sínum aldursflokki á Aldursflokkameistaramóti Íslands, varð Norðurlandameistari æskunnar í 200 m baksundi á NMÆ og fékk brons í 100 m baksundi á sama móti. Hún vann einnig gull á Smáþjóðaleikunum og vann aldursflokkabikarinn á AMÍ.
Erla Dögg Haraldsdóttir átti fínt ár og keppti í úrslitum bæði á Evrópumeistaramótinu og á Mare Nostrum. Erla var Íslandsmeistari í 50 m laug í öllum bringusundsgreinum og var sundmaður ársins hjá ÍRB og Njarðvík fyrir sund sitt á Heimsmeistaramótinu 2011 þar sem hún varð í 17. sæti.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson var valinn sundmaður Keflavíkur fyrir baksund sitt á Íslandsmeistaramótum 2011 og hann varð aftur Íslandsmeistari 2012 í öllu baksundi og var valinn til þess að keppa fyrir Ísland á smáþjóðaleikunum og Mare Nostrum.
Auk þess náðu fjölmargir ungir og efnilegir sundmenn frábærum árangri og ljóst er að sund er í stöðugri sókn í Reykjanesbæ.