„Frábært ár!“
„Þetta er búið að vera frábært ár frá A til Ö!“ sagði Falur Harðarson í leikslok, umvafinn stuðningsmönnum Keflavíkur trylltum af gleði. „Við erum búnir að fara eins langt og við getum í öllum keppnum. Erum Íslandsmeistarar og Bikarmeistarar. Við komumst í úrslit í hópbílabikarnum og hentum honum frá okkur á lokasprettinum og komumst mikið lengra en nokkur bjóst við í Evrópukeppninni. Þetta var frábært ár!“
Nick Bradford tók undir orð þjálfarans og sagði leiktíðina hafa verið frábæra. „Guðjón og Falur sýndu mér og Derrick mikið traust með því að halda í okkur í staðinn fyrir að vera að skipta um erlenda leikmenn eins og hin liðin gerðu og ég held að það hafi borgað sig.“ Nick tók það einnig fram að þeir Derrick hafi alls ekki verið í stjörnuhlutverki í liðinu í vetur. „Í kvöld voru það íslensku strákarnir sem gáfu tóninn með baráttunni og við fylgdum bara með þeim. Ef við vinnum vinnum við sem lið og ef við töpum töpum við sem lið. Þjálfararnir leggja mikla áherslu á það að enginn getur unnið leiki upp á eigin spýtur heldur eru fimm leikmenn á vellinum og fimm leikmenn á bekknum sem spila allir sín hlutverk.“
Magnús þór Gunnarsson stóð sig með mikilli prýði í úrslitakeppninni í ár, en segist þó ekki alveg sáttur við tímabilið hjá sér í heild. „Ég var ágætur í úrslitunum og það er akkurat rétti tíminn líka. Ég kem bara enn betri til leiks á næsta ári.“
Gunnar Einarsson, fyrirliði meistaranna, var drjúgur með leik sinna manna í kvöld og mátti vera það því frammistaða þeirra var óhemju góð. „Þetta var bara formsatriði fyrir okkur að klára þennan leik í kvöld eins og allir sáu! Við höfum ekki tapað gegn íslensku liði hér heima í vetur og það sýnir styrk okkar. Við komum ekki tilbúnir í fyrsta leikinn en sýndum það svo í þessum síðustu þremur leikjum að við erum betra liðið.“
„Þetta var strembið tímabil, en við höfðum þetta,“ sagði Derrick Allen, en hann hefur leikið frábærlega í vetur og var stigahæsti maðurinn á vellinum í kvöld með 26 stig. „Suma leiki í vetur spiluðum við eins og besta liðið í deildinni og aðra daga gekk ekki eins vel. Snæfell mega vera stoltir af sinni frammistöðu í vetur því þeir spiluðu fjári vel í deildarkeppninni og stóðu sig líka vel í úrslitakeppninni. Sumir héldu að við færum út í fimm leiki eins og gegn Grindavík og að við gætum ekki unnið Snæfell á útivelli en við afsönnuðum það og það hvatti okkur áfram í sjálfu sér.“
„Við sýndum í dag að við erum með langbesta lið á Íslandi í dag“, sagði baráttujaxlinn Fannar Ólafsson í leikslok. „Við tökum þá eiginlega þrjú-núll eftir smá hikst í byrjun, en það sem skipti máli hjá okkur var að reyna að halda sama mannskap allt árið og halda stöðugleika í spilinu og það tókst hjá okkur!“
VF-myndir: Hilmar Bragi