Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábært að fara holu í höggi í fyrsta sigrinum
Fimmtudagur 3. ágúst 2017 kl. 00:00

Frábært að fara holu í höggi í fyrsta sigrinum

-segir Karen Guðnadóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja sem vann Hvaleyrarbikarinn í golfi á Eimskipsmótaröðinni

„Það var ólýsanlegt að sjá boltann fara í holu og ég var lengi að melta það en átti hins vegar mjög auðvelt með að gleyma því og halda áfram hringinn,“ sagði Karen Guðnadóttir, afrekskylfingur úr Golfkúbbi Suðurnesja, en hún vann sinn fyrsta sigur á Eimskipsmótaröðinni í Borgunarmótinu á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði um síðustu helgi.

Karen var sex höggum á eftir hinni ungu og bráðefnilegu Kingu Korpak þegar einn hringur af þremur var eftir. Kinga náði sér ekki á strik í lokahringnum og endaði í 3. sæti en Karen hins vegar var í stuði og sigraði á mótinu. Karen náði draumahögginu í fyrsta sinn á ferlinum þegar hún fór holu í höggi á 6. braut. Hún hitti boltann vel með 8-járni og hann endaði í holunni.

Karen var í Danmörku frá ágúst í fyrra fram í júní á þessu ári. Hún mun taka þátt í næta móti á Eimskipsmótaröðinni í Grafarholti aðra helgina í ágúst en fara svo aftur utan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er mjög ánægð með að hafa unnið Hvaleyrarbikarinn sem er flott mót. Maður fær nafnið sitt á Hvaleyrarbikarinn en það er ekki venja á stigamótunum á Eimskipsmótaröðinni. Ég er þokkalega sátt með sumarið. Ég hef náð að leika nokkuð stöðugt golf. Helstu vonbrigðin voru í Eyjum á Íslandsmótinu í holukeppni þar sem ég komst ekki upp úr riðlinum. Nú er bara að fylgja eftir sigri með góðri frammistöðu í Grafarholtinu,“ sagði Karen sem varð í 4. sæti á Íslandsmótinu í höggleik á Hvaleyrinni, helgina á undan Borgunarbikarmótinu.