Frábær útisigur Reynismanna
Reynismenn gerðu góða ferð norður á Húsavík þar sem þeir unnu 3-4 sigur á Völsungi í 2. deild karla í knattspyrnu. Eins og markatölur gefa til kynna var leikurinn afar fjörugur og mikil skemmtun. Reynismenn höfðu náð 0-2 forystu þegar um 30 mínútur voru liðnar af leiknum en Birkir Freyr Sigurðsson skoraði þá bæði mörk liðsins. Þannig var staðan í hálfleik en seinni hálfleikur hófst með látum. Þá litu dagsins ljós tvö mörk, fyrst frá heimamönnum og svo eitt frá Sandgerðingum sem Kristján Hermann Þorkelsson skoraði. Staðan því 1-3 í upphafi síðari hálfleiks. Þegar klukkustund var liðin af leiknum skoruðu Völsungar og staðan því orðin 2-3. Aran Nganpanya virtist svo hafa tryggt Sandgerðingum stigin þrjú þegar hann skoraði tveimur mínútum fyrir leiksloka og breytt stöðunni því í 2-4. Völsungar fengu hins vegar vítaspyrnu á lokamínútu leiksins og breyttu stöðunni í 3-4.
Með sigrinum komust Reynismenn af botninum og hafa nú átta stig í næstneðsta sæti deildarinnar.