Frábær útisigur gegn bikarmeisturunum
Eftir af hafa dvalist í Vestmannaeyjum um hríð komu Keflvíkingar endurnærðir til leiks á Laugardalsvöll í kvöld þegar þeir sóttu Fram heim í Pepsi deild karla í knattspyrnu. Keflvíkingar höfðu þar 2-3 sigur í fjörugum leik gegn nýkrýndum bikarmeisturum.
Keflvíkingar komust yfir í leiknum með sjaldséðu marki frá Einari Orra Einarssyni, en hann var óvænt staddur einn á auðum sjó fyrir framan markið. Hann kláraði færið sitt vel og Keflvíkingar komnir með forystu sem hélst fram að hálfleik. Keflvíkingar komust svo í 0-2 þegar dæmd var vítaspyrna eftir að brotið var á Ray Anthony í teignum. Bojan Ljubicic skoraði af öryggi af punktinum og staða Suðurnesjapilta orðin vænleg.
Framarar minnkuðu muninn eftir klukkutíma leik í 1-2 og sigur því hvergi nærri í höfn hjá gulklæddum Keflvíkingum. Það var svo hinn sjóðheiti Hörður Sveinsson sem gulltryggði stigin þrjú fyrir Keflvíkinga með laglegu marki, en Hörður hafði verið líflegur í leiknum. Framarar náðu að skora mark undir lokin en sigurinn var Keflvíkinga.
Eftir leikinn er Keflavík með 17 stig í 9. sæti deildarinnar. Stutt er í næstu lið bæði fyrir ofan og neðan í töflunni og því ljóst að fallbaráttunni er hvergi nærri lokið. Næsti leikur Keflvíkinga er gegn Stjörnumönnum á Nettóvelli þann 1. september.