Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær skemmtun í Ljónagryfjunni
Teitur tapar ekki skotkeppnum.
Laugardagur 22. desember 2012 kl. 13:07

Frábær skemmtun í Ljónagryfjunni

Það ríkti jólaandi í Ljónagryfjunni í gær þegar Njarðvíkingar slógu upp sannkallaðri körfuboltaveislu. Þar áttust við Njarðvíkurlið karla og sérstakt stjörnum prýtt lið fyrrum leikmanna Njarðvíkinga. Fyrst og fremst var gleðin í fyrirrúmi en þó fengu áhorfendur peninga sinnar virði því úr varð hörkuleikur.

Svo fór að lokum að stjörnuliðið sigraði 116-122 og munaði þar mestu um stórleik Loga Gunnarssonar og Jóhanns Árna Ólafssonar sem hreinlega fóru hamförum fyrir utan þriggja stiga línuna. Logi gerði 33 stig í leiknum og þar af 9 þriggja stiga körfur. Jóhann Árni skoraði öll sín stig fyrir utan en hann setti niður 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum, hreint ótrúleg hittni hjá stjörnunum sem voru með 57% nýtingu í langskotum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Teitur Örlygsson sparaði bomburnar þangað til í hálfleik þegar þriggja stiga keppni fór fram en kappinn gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina. Sjálfur segist hann aldrei hafa tapað slíkri keppni og það gerði hann ekki heldur í gær.

Allur aðgangseyrir og áheit runnu óskipt til Liknarsjóðs Njarðvíkurkirkna og söfnuðust um 700 þúsund krónur í kringum þennan skemmtilega viðburð sem líklega er kominn til þess að vera hjá Njarðvíkingum.

Sérstaka athygli vöktu búningar sem voru gerðir sérstaklega fyrir leikinn en þar voru á ferðinni goðsagnarkenndir Hagkaupsbúningar sem voru notaðir árin 1987-88 hjá UMFN. Appelsínugulu búningarnir voru sérstaklega glæsilegir.

Myndasafn frá leiknum má finna hér.

Myndir: Páll Orri og Eyþór Sæm.