Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær skemmtun í Grindavík: Framlengdur spennuleikur
Miðvikudagur 20. febrúar 2008 kl. 23:34

Frábær skemmtun í Grindavík: Framlengdur spennuleikur

Röstin lék á reiðiskjálfi í kvöld þegar Keflavík marði 101-106 sigur á Grindavík í framlengdum leik í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Boðið var upp á hraða, spennu, dramatík og skemmtileg tilþrif í Grindavík. Keflvíkingar eru nú í lykilstöðu í deildinni og hafa fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir.

 

Birna Valgarðsdóttir reyndist þrautgóð á raunastund þegar skammt lifði af framlengingunni. Staðan var 101-102 fyrir Keflavík sem hélt í sókn en skot liðsins geigaði en Birna náði sóknarfrákastinu og skoraði síðan úr sniðskoti og kom Keflavík í 101-104 þegar 22 sekúndur voru til leiksloka.

 

,,Þetta var spurning um hvort liðið vildi þetta meira og við áttum harma að hefna þar sem við töpuðum fyrir Grindavík þegar við fórum síðast í framlengingu hérna. Það var bara ekkert annað í boði en að vinna þetta,” sagði Birna kát í leikslok. ,,Nú er deildin algerlega í okkar höndum og ég trúi ekki öðru en að við höldum haus og vinnum þetta bara. ,,Þetta eru skemmtilegustu leikirnir, verst að þetta hafi ekki verið bikarleikur, mér hefði sko ekki leiðst að fara í Laugardalshöll,” sagði Birna og hló en viðurkenndi að það hefði verið sætt að kvitta fyrir tapið í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn Grindavík.

 

Nánast um leið og Sigmundur Már Herbertsson dómari tók uppkastið í upphafi leiks varð ljóst að magnaður leikur væri framundan. Liðin skiptust á að skora en í stöðunni 14-14 sótti Keflavík í sig veðrið. Gestirnir pressuðu og léku 2-3 svæðisvörn og unnu nokkra góða bolta og náðu yfirhöndinni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-28 fyrir Keflavík en Jovana Lilja Stefánsdóttir átti lokaorðið í leikhlutanum fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu.

 

Keflvíkingar hófu annan leikhluta á því að gera 9 fyrstu stigin og komust í 22-37 en þá svöruðu Grindvíkingar með 14-4 áhlaupi til baka og staðan 36-41. Keflvíkingar pressuðu mikið í kvöld, léku 2-3 svæðisvörn og maður á mann vörn og breytingar milli þessara varna áttu það til að trufla sóknarleik Grindvíkinga sem oft varð ráðleysislegur.

 

Mjótt var þó á mununum og leiddu Keflvíkingar 47-50 í leikhléi. Aftur voru það svo Keflvíkingar sem voru tilbúnari þegar þriðji leikhluti hófst og náðu upp 10 stiga forskoti 51-61. Grindavíkurvörnin var ekki jafn þétt í kvöld og hún hefur verið í Röstinni lungann af leiktíðinni og það nýttu Keflvíkingar vel. Grindvíkingar voru þó ekki af baki dottnir og með þriggja stiga körfu minnkaði Joanna Skiba muninn í eitt stig 62-63 en Keflvíkingar slitu sig aftur frá Grindavík og lauk leikhlutanum í stöðunni 67-73.

 

Fjórði leikhluti var í járnum allan tímann. Grindavík jafnaði metin í stöðunni 83-83 og skömmu áður hafði Petrúnella Skúladóttir fengið sína fimmtu villu í liði Grindavíkur. Áfram var jafnt og staðan 87-87 þegar TaKesha Watson kom Keflavík í 87-89 með teigskoti og 6,3 sekúndur til leiksloka þegar Igor þjálfari Grindavíkur tók leikhlé.

 

Grindvíkingar réðu ráðum sínum og úr varð að Joanna Skiba fékk boltann. Brunaði upp hægri kant og með endalínunni í átt að körfu, stökkskot til að jafna leikinn og það tókst og blásið til framlengingar í stöðunni 89-89.

 

Alger einstefna var í upphafi framlengingarinnar af hálfu Keflavíkur og hóf Pálína Gunnlaugsdóttir lokasprettinn með þriggja stiga körfu fyrir Keflavík, 89-92. Reyndar gerðu Keflvíkingar 10 fyrstu stig framlengingarinnar og staðan 89-99 þegar Ingibjörg Jakobsdóttir tók til sinna ráða fyrir Grindavík. Tvær gríðarlega mikilvægar þriggja stiga körfur frá Ingibjörgu breyttu stöðunni úr 89-99 í 95-99 og við það hófst magnþrunginn endasprettur.

 

Ingibjörg var aftur að verki og minnkaði muninn í eitt stig, 101-102 með tveimur vítaskotum og Keflavík hélt í sókn. Keflvíkingar áttu skot á körfu Grindavíkur sem geigaði en hin þaulreynda og þrautgóða Birna Valgarðsdóttir var rétta konan á réttum stað, náði frákastinu og skoraði fyrir Keflavík og breytti stöðunni í 101-104 þegar 22 sekúndur voru til leiksloka. Næsta sókn Grindavíkur mislukkaðist þegar Skiba brenndi af sniðskoti með vinstri hendi og þá voru 10 sekúndur til leiksloka, það nægði Keflvíkingum sem fóru heim með fimm stiga sigur 101-106.

 

Í kvöld náði Keflavík því fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar með 34 stig en KR og Grindavík hafa 30 stig í 2. sæti deildarinnar. Auk þess að ná veglegu forskoti í deildinni batt Keflavík enda á mánaða langa sigurgöngu Grindavíkur í Röstinni en fyrir leik kvöldsins höfðu gular ekki tapað þar síðan þann 7. nóvember 2007.

 

Tölfræði leiksins hefur enn ekki borist en hjá Keflavík áttu þær TaKesha Watson og Pálína Gunnlaugsdóttir góðan dag og í liði Grindvíkinga var Tiffany Roberson fyrirferðamikil og Ingibjörg Jakobsdóttir gerði mikilvægar körfur og Jovana Lilja Stefánsdóttir barðist af miklum krafti.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024