Frábær sigur Keflavíkur í Evrópubikarnum!
Keflavík lagði Ovarense Aerosoles að velli með glans í leik liðanna í Evrópukeppni bikarhafa í kvöld. Lokatölur leiksins voru 113-99. Keflavík hafði forystu allan leikinn og misstu aldrei einbeitinguna. Þeir leiddu í hálfleik með 10 stigum, 52-42, eftir að Ovarense höfðu leikið afar slakan sóknarleik það sem af var en Keflvíkingar höfðu þvert á móti leikið frábæra sókn. Boltinn gekk vel á milli manna og Gunnar Einarsson, Falur Harðarson og Magnús Gunnarsson voru iðnir við að setja þriggja stiga körfur. Í seinni hálfleik var boðið upp á meira af því sama nema Ovarense voru farnir að leita mikið eftir Michael Wilson undir körfunni og réðu Keflvíkingar lítið við hann á köflum en brutu mikið á honum sem skilaði sér ágætlega vegna þess að hann var án efa versta vítaskyttan í húsinu í kvöld... Þegar uppi var staðið hafði Wilson hitt úr 2 af 14 vítum sínum!
Með sanni má segja að Keflavíkurliðið hafi verið frábærir fulltrúar íslensks körfuknattleiks í kvöld og er vonandi að liðið nái að fylgja þessari góðu frammistöðu eftir. Stemmningin var rafmögnuð í húsinu og stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenntu og létu aldeilis heyra vel í sér. Guðjón Skúlason var að vonum hæstánægður með úrslitin. „Þetta var meiriháttar! Það gekk allt eins og við höfðum ætlað okkur, jafnvel betur. Liðið sýndi mikinn karakter og leikgleði í kvöld.“ Hann bætti því við að hans menn virtust alltaf hafa svör við öllum útspilum frá Portúgölunum, sérstaklega í sókninni þar sem Keflvíkingar hittu úr 29 af 43 tveggja stiga skotum og 13 af 29 þriggja stiga skotum.
Gunnar Einarsson, sem átti góðan leik í kvöld jafnt í vörn og sókn, sagðist hafa átt von á mótherjunum sterkari og kraftmeiri, þar sem að á pappírunum eru þeir með talsvert stærra og sterkara lið. „Þetta er bara eins og Falur sagði í dag... Stærðin skiptir ekki máli!“ sagði Gunnar.
Stigahæstir Keflvíkinga voru Nick Bradford, sem skoraði 30 stig og tók 13 fráköst, Derrick Allen, sem skoraði 26, og Magnús Þór Gunnarsson sem skoraði 19 stig. „Troðslugoðsögnin“ Michael Wilson var atkvæðamestur gestanna og skoraði 30 stig og tók 15 fráköst. Morales skoraði 21 stig og Jaime 20.
Næsti leikur Keflavíkur í keppninni er á móti Toulon og fer fram á heimavelli þeirra í Frakklandi á fimmtudaginn kemur. „Við vitum nú álíka lítið um þetta lið og við vissum um Portúgalana en þar er alveg á hreinu að franska deildin er ein sú sterkasta í Evrópu þannig að þetta lið hlýtur að vera líklegast til að vinna riðilinn“, sagði Guðjón, og bætir því við að þeir hyggjast nota svipaða leikaðferð og í kvöld, þ.e. að keyra upp hraðann og stóla mikið á hittni utan af velli. Ólíklegt er að margir stuðningsmenn Keflavíkur sjái sér fært að mæta á völlinn í Frakklandi en næstu heimaleikir liðsins í Evrópukeppninni eru 26. nóvember gegn CAB Madeira og 10. desember gegn Toulon.