Frábær sigur Grindavíkur á Fram
Grindavík vann sigur á Fram, 3-2, á heimavelli sínum í kvöld. Yfirburðir Grindvíkinga voru mun meiri en lokatölur gefa til kynna, en staðan var 3-0 í hálfleik.
Grétar Ólafur Hjartarson skoraði tvö mörk fyrir heimamenn og Sinisa Kekic eitt, en Ríkharður Daðason svaraði með tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og voru bæði lið að láta boltann ganga vel og ógna marki andstæðinganna. Heimamenn tóku þó fyrr en varði öll völd á vellinum.
Sinisa Kekic komst í ákjósanlegt færi á 14. mínútu en varnarmenn Grindavíkur komust fyrir skotið. Á þessum tímapunkti voru Grindvíkingar í stórsókn og var aðeins tímaspursmál hvenær stíflan myndi bresta.
Á 23. mínútu kom loks að því að vörn Fram brást þegar Kekic skallaði boltann fyrir fætur Grétars eftir laglega sókn og Grétar skaut viðstöðulaust hægri fótar skoti fyrir utan vítateig, óverjandi fyrir Tómas Ingason í marki Safamýrarmanna.
Grétar var alls ekki hættur og hélt áfram að stríða vörn Fram. Á 29. mínútu komst hann inn í vítateig Fram þar sem hann sá við Hans Fróða Hansen og vippaði knettinum glæsilega yfir Tómas og í netið. Staðan var orðin 2-0 og Framarar virtust gjörsamlega ráðalausir gegn frískum Grindvíkingum.
Það sem eftir lifði hálfleiks voru heimamenn tryggilega við stjórnvölinn og voru oft líklegir til að bæta við forskotið. Svo fór því tveimur mínútum eftir að venjulegum leiktíma lauk að Ray Anthony Jónsson gaf góðan bolta fyrir mark Fram og kóngurinn, Sinisa Kekic, kom svífandi og tryggði sínum mönnum þriggja marka forskot í hálfleik.
Yfirburðir Grindvíkinga héldu áfram í upphafi seinni hálfleiks og voru Framarar hreinlega arfaslakir þar sem ekkert gekk upp í sóknarleiknum og vörnin var ótraust.
Eftri rúmlega klukkutíma leik voru reynsluboltarnir Kekic og Gestur Gylfason teknir af velli vegna smávægilegra meiðsla og fóru leikar þá að jafnast. Fram sótti í sig veðrið og Ríkharður, sem var potturinn og pannan í öllum sóknartilburðum gestanna, gerðist aðgangsharður við mark Grindavíkur.
Svar Framara kom á 70. mínútu þegar Ríkharður setti boltann í net Grindavíkur eftir barning í markteig. Stuttu síðar munaði minnstu að títtnefndur Ríkharður bætti öðru við, en á 77. mínútu braut Guðmundur Andri Bjarnason á Fróða Benjamínsen innan vítateigs og Ríkharður skoraði örugglega úr vítinu.
Síðustu mínútur leiksins urðu því meira spennandi en búist var við, en Grindavík hélt haus og vann sinn fyrsta sigur í sumar og siglir nú lygnan sjó um miðja deild.
Zeljko Sankovic sagði að leikur sinna manna heði verið frábær í kvöld en spilið hefði þó riðlast eftir að Kekic og Gestur fóru af leikvelli. „Fram voru líka að spila mjög vel í seinni hálfleik og áhorfendur fengu skemmtilegan opinn leik, en það er það sem íslenskir áhorfendur búast við.“ Aðspurður hvort hann væri búinn að finna þá leikaðferð sem hann hafi verið að leita að sagði hann að nú væri liðið loks að finna sig. „Ég sagði stuðningsmönnum okkar fyrir leikinn að þeir mættu búast við sprengingu. Við höfum verið að bæta okkur í hverjum leik og formið á liðinu er gott. Leikurinn hjá okkur í kvöld kemur þess vegna ekki á óvart.“
VF-mynd/Þorgils Jónsson