Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær Grindavíkursigur í Ásgarði
Aaron Broussard átti frábæran leik fyrir Grindvíkinga í kvöld og skoraði 37 stig. VF-Mynd/JJK
Fimmtudagur 25. apríl 2013 kl. 21:29

Frábær Grindavíkursigur í Ásgarði

- Knúðu fram oddaleik í Röstinni á sunnudag

Grindavík vann í kvöld frábæran útisigur gegn Stjörnunni í útslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik, 82-88. Sigurinn var fyllilega verðskuldaður enda börðust Grindvíkingar af miklum krafti í leiknum. Með sigrinum tókst Grindvíkingum að knýja fram oddaleik um Íslandsmeistaratitlinn sem verður leikinn í Röstinni í Grindavík á sunnudag. Staðan í einvíginu er 2-2.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru yfir með 14 stigum hálfleik, 37-51. Þann mun náðu Stjörnumenn aldrei að brúa þó að þeir hafi nálgast gestina úr Grindavík á lokamínútunum. Varnarleikurinn hjá Grindvíkingum var góður og þeir voru duglegir að brjóta á Stjörnumönnum og stöðva þannig sóknir liðsins.

Aaron Broussard átti frábæran leik fyrir Grindavík og skoraði 37 stig og tók einnig 12 fráköst. Hann var búinn að skora yfir 20 stig í fyrri hálfleik. Samuel Zeglinski kom næstur með 15 stig og Jóhann Árni Ólafsson skoraði 13 stig. Grindvíkingar voru einnig að fá gott framlag af bekknum í kvöld sem hefur skort í síðustu leikjum. Davíð Ingi Bustion átti góða innkomu í kvöld og skoraði 6 stig auk þess að taka 13 fráköst. Grindvíkingar tóku alls 21 sóknarfrákast í kvöld sem skipti sköpum og skilaði mörgum stigum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hreinn úrslitaleikur fer því fram á sunnudagskvöld í Röstinni. Þar geta Grindvíkingar varið Íslandsmeistaratitil sinn frá því á síðustu leiktíð og orðið Íslandsmeistarar í þriðja sinn í sögu félagsins.

Stjarnan-Grindavík 82-88 (19-24, 18-27, 20-18, 25-19)

Stjarnan: Justin Shouse 26/4 fráköst/7 stoðsendingar, Jarrid Frye 17/8 fráköst, Jovan Zdravevski 13, Marvin Valdimarsson 10/10 fráköst, Brian Mills 9/10 fráköst/3 varin skot, Fannar Freyr Helgason 5, Dagur Kár Jónsson 2.

Grindavík: Aaron Broussard 37/12 fráköst, Samuel Zeglinski 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 13/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 8, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/9 fráköst, Davíð Ingi Bustion 6/13 fráköst, Ólafur Ólafsson 2.


Jóhann Árni Ólafsson skoraði 13 stig í kvöld.


Davíð Ingi Bustion tók 13 fráköst á þeim 18 mínútum sem hann lék í kvöld. Hann frákastaði mest allra leikmanna í Ásgarði í kvöld.