Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær ferð til Rúmeníu
Þriðjudagur 27. ágúst 2013 kl. 09:10

Frábær ferð til Rúmeníu

21-25 ágúst sl. var haldið Evrópumót ungmenna í taekwondo á aldrinum 12-14 ára í Rúmeníu. Fjórir íslenskir keppendur tóku þátt, þar af þrír frá Keflavík, en með í för voru einnig þjálfarar og fylgdarlið.

Á fyrsta degi keppti Keflvíkingurinn Ágúst Kristinn. Hann er gífurlega efnilegur ungur taekwondo kappi sem hefur staðið sig mjög vel á síðasta ári. Ágúst keppti við keppanda frá Tyrklandi. Ágúst sótti og hélt sig við leikáætlunuina en Tyrkinn var einfaldlega of sterkur fyrir Ágúst. Tyrkinn endaði svo með bronsverðlaun í flokknum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tveimur dögum síðar keppti Keflvíkingurinn Ástrós Brynjarsdóttir. Ástrós er ein sigursælasti keppandi Íslands, en hún var meðal annars valin taekwondo kona Íslands 2012. Ástrós sat hjá í fyrstu umferð og keppti svo við stúlku frá Hvíta Rússlandi. Ástrós var svoldið lengi í gang þar sem Hvítrússinn komst yfir í fyrstu lotu, en svo náði Ástrós sér á strik og hélt forrystu það sem eftir var bardagans og sigraði.

Næst keppti Ástrós við stúlku frá Svíþjóð, en sú stúlka var feykigóð. Ástrós var yfir eftir fyrstu lotu og bardaginn var hnífjafn allt þar til um ein mínúta var eftir af bardaganum en þá komst sú sænska yfir og náði að halda forystu þar til bardaginn var búinn. Sænska stúlkan náði silfurverðlaunum á mótinu. Ástós endaði því í 5. sæti.

Daginn eftir kepptu Bjarni Júlíus og Helgi Valentín. Báðir hafa þeir staðið sig mjög vel á mótum innanlands og erlendis á síðustu misserum. Fyrst keppti Bjarni við Pólland. Þeir voru jafnokar í bardaganum en mikið vantaði upp á dómgæsluna þar sem þrjú höfuðspörk Bjarna voru ekki talin og Pólverjanum var dæmdur sigur.  Pólverjinn fékk svo bronsverðlaun í flokknum.

Skömmu síðar keppti Helgi Valentín við Úkraínu. Úkraínumaðurinn var yfir nánast allan bardagann, en í síðustu lotu náði Helgi að jafna metin þegar lítið var eftir. Þar sem bardaginn var jafn að stigum þurfti að grípa til bráðabana, en þá er aukalota þar sem sá sem skorar fyrst sigrar bardagann. Helgi sótti hart og náði að skora og sigraði því bardagann.

Í næsta bardaga keppti Helgi við öflugan keppanda frá Króatíu. Helgi sótti vel en Króatinn sigraði þegar Helgi gat ekki haldið áfram í annari lotu. Helgi endaði í 5. sæti í flokknum.

Landsliðsþjálfarinn Meisam Rafie var ánægður með árangurinn og sagði að keppendur hefðu staðið sig mjög vel, sýnt góða tækni og barist vel. Hann var ánægður að keppendur hlustuðu vel á leiðbeiningar og sýndu íþróttamannslega hegðun. Hann var þá líka mjög ánægður að fá tvo keppendur upp úr fyrstu og annarri umferð á mótinu, en það er sjaldgæft á svona sterku móti. Hann segir að framtíð taekwondo á Íslandi sé í unga fólkinu, en efnilegasta taekwondo fólkið á Íslandi er enn ungt að aldri.