Fótbolti.net-mótið: Undirbúningstímabilið í fótbolta hafið
Undirbúningstímabil knattspyrnunnar 2021 byrjaði formlega á föstudag þegar æfingamót Fótbolta.net hófst. Suðurnesjaliðunum gekk misvel í sínum fyrstu leikjum.
Njarðvíkingar byrja með látum
Njarðvíkingar mættu Selfossi í Reykjaneshöllinni og þar var sannkölluð markaveisla, átta mörk voru skoruð áður en blásið var til leiksloka. Maður leiksins var Skotinn Kenneth Hogg sem hóf árið með því að skora þrennu, Atli Freyr Ottesen Pálsson skoraði eitt mark fyrir Njarðvík.
Keflavíkingar vel undirbúnir fyrir Pepsi Max-deildina
Lengudeildarmeistarar Keflavíkur mættu FH í sínum fyrsta leik á laugardag, leikið var í Hafnarfirði. Keflvíkingar, sem leika í Pepsi Max-deildinni í ár, höfðu betur í þessari viðureign og sigruðu 2:1. Það voru Oliver Kelaart, 22ja ára ástralskur sóknarmaður sem er til reynslu hjá Keflavík, og Helgi Þór Jónsson sem skoruðu mörkin fyrir Keflavík. Keflvíkingar eru því með þrjú stig, jafnir Blikum.
Grindavík tapaði í Kópavogi
Grindavík lék gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli en þau leika í sama riðli og Keflavík og FH.
Markalaust var í hálfleik en í síðari hálfleik seig á ógæfuhliðina hjá Grindavík og Blikar settu þrjú mörk án þess að Grindvíkingar næðu að svara, lokatölur 3:0 fyrir Breiðabliki og Grindvíkingar stigalausir í riðlinum.
Þróttarar halda áfram leikgleðinni
Þróttur Vogum lék gegn Haukum á laugardag. Þróttarar voru 1:0 undir í hálfleik en í síðari hálfleik tryggðu þeir sér sigur með mörkum Viktors Smára Segatta og Eyjólfs Arasonar, lokatölur 2:1 fyrir Þrótti.
Þróttarar eru með þrjú stig eftir fyrstu umferð, jafnir Aftureldingu sem vann Vestra.