Fótbolti um helgina
Um næstu helgi heldur Íslandsmót meistaraflokka innanhúss áfram, en þá fer fram keppni í 1. deild karla, 1. deild kvenna, 2. deild kvenna og 4. deild karla.
Í 1. deild karla er fyrst keppt í fjórum fjögurra liða riðlum þar sem er leikin einföld umferð á laugardeginum. Tvö efstu lið hvers riðils fara áfram í 8-liða úrslit sem fer fram á sunnudaginn, en þriðja sætið situr eftir og botnliðið hvers riðils fellur í 2. deild. Þann sama dag eru undanúrslitin og úrslitin sjálf kláruð og Íslandsmeistarar innanhúss verða krýndir.
Keflavík spilar í fyrstu deild karla og er í afar erfiðum riðli með ÍA, Fylki og Tindastóli. Milan Stefán Jankovic, þjálfari Keflavíkur, játar að verkefnið sé erfitt, en setur stefnuna engu að síður á annað tveggja toppsætanna. „Í þessari keppni er allt hægt og allir geta unnið alla. Okkur gekk vel í fyrra en við verðum á fjögurra manna sem voru með okkur þá. Ómar og Jói Ben. eru farnir og svo eru tveir meiddir, en við getum alveg komist áfram.“
Leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni og fyrsti leikur Keflavíkur er kl. 10.00 í fyrramálið.
Kvennalið Keflavíkur spilar í 2. deild, en önnur lið í riðlinum eru Fylkir, Ungmennafélag Bessastaða og Huginn. Riðlarnir eru þrír þannig að efsta lið hvers riðils kemst í undanúrslit auk þess liðs sem hefur bestan árangur í öðru sæti. Liðin sem vinna þá leiki fara beint upp í fyrstu deild og leika ekki til úrslita sín á milli.
Ásdís Þorgilsdóttir, nýráðinn þjálfari Keflavíkur, er mjög bjartsýn fyrir helgina. „Við eigum að vinna þennan riðil og komast upp í fyrstu deildina. Þetta eru þrír 18 mínútna leikir í riðlinum í röð og vonandi einn undanúrslitaleikur, allt á einum degi. Svo ætlum við að spila mikla pressu þannig að þetta er svolítið strembið prógramm, en við erum með góðan bekk og getum dreift álaginu vel.“ Ásdís sagði einnig að Keflavík væri að leita að leikmönnum til að styrkja hópinn fyrir sumarið en ekkert væri komið á hreint í þeim efnum.
Leikir kvennaliðsins fara fram á Varmá í Mosfellsbæ á morgun eins og áður sagði.
Að auki má geta þess að um helgina fara fram nokkir leikir í Faxaflóamótinu hjá yngri flokkunum:
Laugardagur 29. nóvember í Reykjaneshöll, Faxaflóamót 4. flokkur pilta:
B - Riðill B-lið kl. 9:00: Keflavík 2 - ÍA 2
A - Riðill A-lið kl. 10:00: Keflavík - ÍA
A - Riðill B-lið kl. 11:20: Keflavík - ÍA
B - Riðill A-lið kl. 12:35: Keflavík 2 - ÍA 3
Sunnudagur 30. nóvember í Reykjaneshöll, Faxaflóamót 3. flokkur pilta:
Kl. 17:00: Keflavík - Haukar
Allir á völlinn!