Fótbolti: Grindavík tryggði Keflavík toppsætið
Keflvíkingar eru komnir á topp Landsbankadeildarinnar að nýju með glæstum sigri á Þrótti á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld. Það er hins vegar sigur Grindvíkinga á FH-ingum sem tryggir Keflvíkingum toppsætið sem Keflvíkingar verma nú með tveggja stiga forskoti á FH. Valsmenn töpuðu einnig fyrir HK á heimavelli, þannig að heilladísirnar voru með keflvískum í kvöld.
Heilladísirnar mættu þó ekki strax á leikinn í kvöld því strax á 14. mínútu varði Bjarki Guðmundsson glæsilega vítaskot frá Guðmundi Steinarssyni. Fimm mínútum síðar var markareikningur Keflvíkinga opnaður með glæsilegu innleggi frá Brynjari Erni Guðmundssyni. Þarna var stórskotahríðin hafin hjá Keflavík því þremur mínútum síðar skoraði Guðmundur Steinarsson með þrumuskoti úr miðjum vítateignum. Guðmundur klippti boltann glæsilega í möskvana eftir sendingu frá Patrik Redo.
Stórsókn Keflavíkur hélt áfram allan fyrri hálfleikinn þó svo þær renni margar út í sandinn. Þróttarar eru einnig sprækir og reyna mörg skot að marki en flest framhjá. Þeir eru þó nærri því að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks en Kenneth Gustafsson bjargar á línu.
Simun Samuelsen skoraði þriðja mark Keflavíkur á níundu mínútu síðari hálfleiks en skömmu áður hafði Guðmundur Viðar Mete farið útaf meiddur.
Keflvíkingar hafa góða stjórn á leiknum í síðari hálfleik og sigurinn var aldrei í hættu. Jóhann B. Guðmundsson fór útaf um miðjan síðari hálfleik fyrir Magnús Þorsteinsson sem skoraði fjórða mark Keflavíkur á 85. mínútu. Þá var sókn Keflavíkur farin að þyngjast umtalsvert en heimamenn í Keflavík gerðu harða atlögu að marki Þróttara síðustu fimm mínútur leiksins. Það var síðan mínútu fyrir leikslok að Patrik Redo setti fimmta markið fyrir Keflavík. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri.
Staðan
Staðan í deildinni er núna þannig að Keflavík er efst með 36 stig, FH kemur næst með 34 stig. Markatala þeirra er jöfn en bæði Keflavík og FH eru með 19 mörk í plús. Valur er í þriðja sæti deidarinnar með 29 stig, Breiðablik í fjórða með 27, KR í fimmta með 25 stig sem eru jafn mörg stig og Fram hefur í sjötta sæti. Grindvíkingar hafa 24 stig eftir sigur á FH í kvöld og verma sæti númer sjö. Áttundu eru Fjölnismenn með 21 stig, Þróttur er í 9. sæti með 18 stig og Fylkir hefur 15 stig í 10. sæti deildarinnar. HK er komið upp úr botnsætinu og hefur níu stig í 11. sæti eftir sigurinn á Val í kvöld. Það eru síðan lánlausir Skagamenn sem verma botnsætið með aðeins átta stig eftir 16 umferðir. Einn sigur, fimm jafntefli og 10 tapleikir í sumar á þeim bænum.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Efri myndin: Keflavíkingar fagna marki Guðmundar Steinarssonar í fyrri hálfleik
Neðri myndin: Magnús Þorsteinsson skoraði fjórða mark Keflavíkur af miklu öryggi.