Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fótboltasumarið 2021 er hafið
Keflvíkingar fengu ófá tækifæri til að fagna á síðustu leiktíð og leika nú aftur í Pepsi Max-deildinni. Þeir hefja leik á sunnudag gegn Víkingi í Reykjavík. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 29. apríl 2021 kl. 07:50

Fótboltasumarið 2021 er hafið

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst um helgina

Fótboltasumarið 2021 er farið af stað. Mjólkurbikar karla hófst í síðustu viku og hafa Suðurnesjaliðin Njarðvík, Þróttur og Víðir tryggt sig áfram í næstu umferð á meðan Reynismenn heltust úr lestinni um helgina þegar þeir töpuðu fyrir ÍBV. Grindavík leikur í Mjólkurbikar kvenna á föstudag gegn Hamar frá Hveragerði en bæði Keflavíkurliðin sitja hjá í fyrstu umferð.

Á sunnudag hefja Keflvíkingar leik á Íslandsmótinu þegar þeir mæta Víkingum á útivelli. Þetta verður fyrsti leikur Keflavíkur í Pepsi Max-deild karla síðan 2018 þegar það féll úr efstu deild. Keflvíkingar unnu Lengjudeildina í fyrra og þóttu spila skemmtilegan sóknarbolta, þeir voru nálægt því að slá markametið í næstefstu deild og þegar leik var hætt var Joey Gibbs aðeins þremur mörkum frá því að jafna markamet deildarinnar sem hefur staðið síðan 1976. Það verður spennandi að sjá hvernig Keflvíkingar koma til með að spjara sig í sumar en undirbúningstímabilið gefur góð fyrirheit.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Pepsi Max-deild kvenna hefst í næstu viku og á miðvikudag taka Keflvíkingar á móti Selfossi á Nettóvellinum. Keflavík tryggði sér sæti á ný í efstu deild eftir árs fjarveru en lið Keflavíkur og Tindastóls báru af í Lengjudeild kvenna á síðasta ári.

Lengjudeildir karla og kvenna og neðri deildir hefja einnig leik í næstu viku.

Víkurfréttir munu fjalla um öll Suðurnesjaliðin á vef sínum á næstu dögum og spjalla við forsvarsmenn liðanna.

Leikgleðin smitar frá sér til áhangenda

Víkurfréttir heyrðu í Eysteini Húna Haukssyni, öðrum aðalþjálfara Keflavíkur, og spurðum hann út í komandi tímabil. Hverjar væntingarnar væru og hvernig liðið kæmi undan vetri.

„Við erum spenntir og ánægðir með liðið okkar og hvernig undirbúningstímabilið hefur verið. Við teljum okkur eins vel undirbúna og við getum verið og bíðum spenntir eftir að mæta á Víkingsvöllinn í fyrsta leik.

Það verður mikil törn í maí, hver leikurinn af öðrum og lykilatriði að halda mönnum í standi. Við eigum í smá basli með nokkra leikmenn núna í byrjun móts en það er ágætis breidd í hópnum og maður kemur í manns stað. Við höfum bætt við mannskap þar sem við töldum þörf á og erum mjög samkeppnishæfir við önnur lið í deildinni – við getum strítt hvaða liði sem er, það hefur sýnt sig á undirbúningstímabilinu þótt það sé auðvitað misjafnt hvernig menn stilla upp í æfingaleikjum.

Keflavík er að færa sig upp á næsta stig og við þurfum að læra fljótt og hratt – megum ekki við að gera mörgum sinnum sömu mistökin, manni er refsað fljótt fyrir það í þessari deild.

Hópurinn er eins og við viljum hafa hann og nú bíðum við bara eftir að það verði flautað til leiks. Við viljum fá alla Keflvíkinga með okkur, eins marga og mega koma, við upplifðum það í fyrra í fyrsta sinn að það var uppselt á Nettóvöllinn. Leikgleðin í hópnum hefur smitað út frá sér til áhangenda og við erum raunsæir á það að við getum staðið okkur vel í þessari deild.“