Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fótboltasumarið 2011 - Þróttur Vogum
Sunnudagur 1. maí 2011 kl. 13:43

Fótboltasumarið 2011 - Þróttur Vogum

Þrátt fyrir að sumarið sé ekki alveg á því að leyfa fótboltanum að rúlla af stað í augnablikinu þá höldum við engu síður áfram að kynna til leiks þau lið af Suðurnesjunum sem hefja leik innan skamms á komandi Íslandsmóti. Að þessu sinni fjöllum við um lið Þróttar Vogum en þeir leika í þriðju deild og hefja leik laugardaginn 21. maí á Leiknisvelli gegn KB í deildinni. Þróttur leikur einnig í Valitor-bikarnum og þar mæta þeir Kjalnesingum þann 3. maí í Reykjaneshöllinnni. Þróttarar hafa leikið í Lengjubikarnum á undirbúningstímabilinu en ekki sigrað þar nema einn leik og fengið á sig 17 mörk í fjórum leikjum. Við ræddum við Sigurð Hilmar Guðjónsson sem þjálfar liðið ásamt Þóri Rafni Hauksssyni en báðir leika þeir jafnframt með liðinu.

Þórir, sem er 26 ára gamall, hefur spilað undanfarin ár með Þrótti Vogum en hefur einnig spilað með Njarðvík, ÍH og Víði Garði. Þórir er menntaður íþróttafræðingur frá Háskóla Reykjavíkur og hefur einnig lokið KSÍ B stigi. Sigurður Hilmar Guðjónsson er 29 ára gamall Sandgerðingur sem hefur spilað með Þrótti Vogum síðustu þrjú árin auk þess að hafa þjálfað yngri flokka Þróttar Vogum. Sigurður Hilmar hefur einnig spilað með meistaraflokki Reynis Sandgerði. Hann hefur lokið KSÍ III þjálfunarstigi og byrjaði í haust að þjálfa yngri flokka í Njarðvík og mun hann halda því áfram ásamt því að þjálfa Þróttara. Þeir félagar sömdu til eins árs við Þróttara í nóvember á síðasta ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Staðan í riðli Þróttar í Lengjubikarnum


Sigurður Hilmar segir undirbúningstímabilið hafa gengið ágætlega, liðið hafi verið að spila mikið af leikjum, fyrst æfingaleiki og svo auðvitað í Lengjubikarnum. „Höfum reyndar verið að fá nokkra skelli en leiðin liggur upp á við, það er klárt mál og stemningin er góð eins og alltaf hjá Þrótturum.“


Mannabreytingar hjá liðinu hafa verið einhverjar: „Við misstum mikla reynslubolta eftir tímbilið í fyrra. Gunnar Helgason, leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og fyrirliði liðsins er horfinn á braut en hann ákvað að söðla um og ætlar að spila með KH í Reykjavík. Þá er auðvitað þjálfarinn okkar frá í fyrra Hallur Kristján Ásgeirsson farinn en hann var lang markahæsti leikmaður liðsins í fyrra. Þá eru 3-4 í viðbót farnir í önnur lið eins og gengur og gerist. Af leikmönnum sem eru komnir til liðs við okkur, þá ber helst að nefna að markvörðurinn Jóhann Baldur Bragason er kominn til okkar frá Víði. Vonandi náum við svo að styrkja okkur með 2-3 sterkum leikmönnum í viðbót, þá ættum við að vera í fínum málum fyrir átökin í sumar,“ segir annar þjálfari Þróttar Sigurður Hilmar Guðjónsson. Hér má sjá leikmannahóp Þróttar í sumar á vef KSÍ.

Hver eru markmið Þróttar í sumar?„Markmið liðsins hlýtur að vera að gera betur en í fyrra. Höfum oft verið nálægt því að komast í úrslitakeppnina, en núna stefnum við klárlega á að komast þangað í fyrsta skipti í sögu félagsins.“

Báðir þjálfarar liðsins þjálfa einnig nokkra af yngri flokkum Njarðvíkinga og því liggur beinast við að spyrja hvort leitast verði eftir liðstyrk til Njarðvíkur? „Það er aldrei að vita, það eru nú þegar þó nokkrir uppaldir Njarðvíkingar í liðinu m.a. annar af þjálfurunum, þannig að það er ekki ólíklegt að við reynum að fá einhverja þaðan að láni. Annars lenti Þórir í því að kalla „koma svo Njarðvík“ í leik um daginn, enda búinn að þjálfa yngri flokka Njarðvíkur í nokkur ár og heldur vanari að kalla á græna heldur en appelsínugula,“ segir Hilmar léttur í bragði að lokum.

Mynd/fotbolti.net: Sigurður Hilmar til vinstri og Þórir Rafn hægra megin


[email protected]