Förum eins ofarlega og hægt er
Keflvíkingar hafa snúið gengi liðsins við á síðustu vikum og unnu þeir alla sína leiki í síðustu viku. Fyrst voru Hamarsmenn lagðir 87-88 í æsispennandi leik í Hveragerði, síðan var Snæfellsliðinu komið í lóg 119-84 og að lokum voru Ísfirðingar burstaðir á eigin heimavelli 45-92, með meira en helmingsmun. Sigurður Ingimundarson, þjálfari þeirra, hlýtur að vera manna óánægðastur með stoppið en nokkuð víst er að ekkert toppliðanna vill mæta Keflvíkingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. „Mér sýnist fyrsta sætið vera of langt undan en við erum vonandi komnir í gang og ættum að geta unnið liðin fyrir ofan okkur í úrslitakeppninni” sagði Guðjón Skúlason fyrirliði sem leikið hefur sérlega vel að undanförnu og er að margra áliti lykillinn að velgengni liðsins. „Við reynum bara að komast eins ofarlega og hægt er”.