Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Formaður Reynis: Vildum mæta Keflavík
Liðsmenn Reynis Sandgerði fá ærið verkefni þegar þeir mæta Grindavík.
Þriðjudagur 18. desember 2012 kl. 14:21

Formaður Reynis: Vildum mæta Keflavík

Reynir Sandgerði fékk enga aukvisa í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfuknattleik. Sandgerðingar fá..

Reynir Sandgerði fékk enga aukvisa í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfuknattleik. Sandgerðingar fá Íslandsmeistara Grindavíkur í heimsókn og er Sveinn H. Gíslason, formaður körfuknattleiksdeildar Reynis Sandgerðis, kátur með dráttinn.

„Mér líst mjög vel á þetta. Mig dreymdi um að fá eitt af Suðurnesjaliðunum og það rættist. Það vildu flestir fá að mæta Keflavík en við erum mjög sáttir með að fá Íslandsmeistarana,“ segir Sveinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það segir sig sjálft að þegar þú ert kominn í 8-liða úrslit þá eru engir auðveldir andstæðingar. Það hefði kannski verið besti kosturinn hjá okkur að fá Val til að komast áfram þar sem við spilum í sömu deild og þeir. Þetta er hins vegar fínt.“

Reynir Sandgerði hefur aðeins einu sinni áður komist í 8-liða úrslit í bikarnum og var það árið 1990 þegar liðið tapaði með fjórum stigum gegn Haukum í miklum spennuleik. Sveinn segir að ekki séu miklar líkur á að liðinu takist að slá Grindavík úr leik en allt geti þó gerst.

„Það er gott fyrir okkar lið að fá að kynnast því að spila alvöru leik. Flestir hafa bara reynslu af því að sitja á bekknum. Ef menn hafa trú á þessu þá er allt hægt. Það er stemmning fyrir þessum leik og vonandi náum við að fylla húsið. Það er orðið ansi langt síðan að það var fullt á pöllunum í íþróttahúsinu í Sandgerði,“ segir Sveinn.
Leikið verður í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í byrjun janúar og þá kemur í ljós hvaða Suðurnesjalið leika í undanúrslitum. Öruggt er að tvö Suðurnesjalið leika í undanúrslitum því Keflavík og Njarðvík drógust einnig saman.