Fór holu í höggi með pútternum!
Sló draumahöggi með pútter á Húsatóftavelli - Týndi síðan pútternum
Fannar Jónsson, kylfingur úr Golfklúbbi Grindavíkur, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 7. braut Húsatóftavallar á dögunum. Fannar var búinn að slá bolta sinn á gulum teig á 7. braut inn á flöt og fékk þá hugljómun að prófa að slá af rauðum teig sem er öllu nær flötinni.
Fannar var að spila ásamt tengdamóður sinni, Gerðu Hammer sem er einnig félagi í GG, og ákvað Fannar að slá á rauðum teig. Í stað þess að slá með fleygjárni þá ákvað Fannar að rífa fram pútterinn og sló með honum inn á flöt. Það virkaði svona skínandi vel því Fannar fór hreinlega holu í höggi.
„Ég tók bara upp pútterinn og sló svona semí-fast í boltann. Hann lenti rétt fyrir neðan veginn og rúllaði niður brekkuna í karganum, inn á flötina og endaði svo í holunni,“ sagði Fannar í samtali við Kylfing.is. Ótrúlegt högg hjá Fannari en höggið af rauðum teig á brautinni er um 70 metra langt. Þó Fannar fái líklega ekki inngöngu í Einherjaklúbbinn fyrir draumahöggið þá er ekki á hverjum degi sem kylfingur fer holu í höggi með pútter. Lánið var greinilega með Fannari á sjöundu braut en ólánið dundi yfir á við tólfta teig. Fannar gleymdi pútternum við teiginn og þegar hann snéri tilbaka til að ná aftur í hann var pútterinn horfinn og ekkert hefur spurst til hans síðan.