Fór holu í höggi í fimmta sinn
Öldungameistarinn Sigurður Albertsson úr Golfklúbbi Suðurnesja fór holu í höggi í boðsmóti Sparisjóðs Keflavíkur á Hólmsvelli í Leiru sl. föstudag. Hann náði draumahögginu á 16. braut, notaði 8-járn. Þetta var í fimmta sinn sem hann nær draumahöggi allra kylfinga og í annað sinn sem hann fer holu í höggi á 16. brautinni í Leirunni. „Ég sló bara létt með 8-járni og boltinn rúllaði eina 10 metra á flötinni áður en hann small í holuna,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
Sigurður, sem er 71 árs, varð Íslandsmeistari öldunga 70 ára og eldri fyrr í sumar. Hann er mikill íþróttamaður og var landsliðsmaður í knattspyrnu áður en hann snéri sér að golfinu. „Ég byrjaði í golfinu þegar ég hætti í fótboltanum 1971. Ég er búinn að spila golf í yfir 35 ár og var meðal annars í golflandsliðinu 55 ára og eldri 15 ár í röð. En ég var búinn að spila golf í ein 20 ár þegar ég fór fyrst holu í höggi,” sagði þessi mikli keppnismaður.
Sigurður varð m.a. tvöfaldur Íslandsmeistari með knattspyrnuliði Keflavíkur á sínum tíma og spilaði nokkra landsleiki, sagðist ekki alvega hafa töluna á þeim. „En ég spilaði hinn fræga landsleik við Dani sem tapaðist 14:2, ég á kannski ekkert að vera segja frá því. En það er leikur sem er líklega einn sá merkilegasti í knattspyrnusögunni, ekki fyrir góð úrslit heldur hitt.“ Hann er með 7 í forgjöf, „ég hef aðeins hækkað forgjöfina á síðustu árum, komst lægst niður í fjóra.“ Sigurður segist fara í golf nær daglega og þá oftast í Leiruna og væri sá völlur í mestu uppáhaldi. „Mér finnst alltaf skemmtilegast að spila Leiruna, en það er líka mikil áskorun að leika Grafarholtið í Reykjavík.“ Sigurður fór fyrst holu í höggi fyrir um 15 árum og þá var það Bergvíkin fræga á Hólmsvelli sem féll. Síðan hefur hann farið tvisvar holu í höggi á 16. braut í Leirunni, einu sinni á 8. holunni í Leirunni og svo einu sinni á 14. holunni á Flúðum. Sannarlega skotviss maður Sigurður!
VF-mynd/ Magnús Sveinn Jónsson - Sigurður tekur við verðlaunum frá Geirmundi Sparisjóðsstjóra í Keflavík