Flottur Keflavíkursigur á Haukum en Njarðvík tapaði
Keflvíkingar unnu flottan sigur á Haukum en Njarðvíkingar máttu þola tap gegn ÍR en bæði lið léku á útivelli í kvöld í Domino’s deildinni í körfubolta karla.
Keflvíkingar höfðu betur í hörku spennandi leik í Hafnarfirði gegn Haukum sem voru að endurheimta hinn snjalla Kára Jónsson. Lokatölur urðu 90-87.
Heimamenn voru með 9 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta 29-20 og fátt benti til að Keflavík væri að fara að vinna leikinn. Reggie Dupree var hins vegar á annarri skoðun en hann var frábær í leiknum. Keflvíkingar unnu annan leikhluta með 13 stigum og leiddu því með fjórum stigum í hálfleik. Seinni hálfleikur var mjög jafn, heimamenn minnkuðu muninn í þriðja leikhluta en Keflvíkingar voru sterkari í lokin og kláruðu leikinn með 3ja stiga sigri, 87-90. Útlendingurinn í bítlabæjarliðinu var líka mjög góður og skoraði Cameron Forte 24 stig og var með góða nýtingu. Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar með KR og ÍR með 6 stig.
Njarðvíkingar gerðu ekki eins góða ferð í bæinn og töpuðu fyrir ÍR 82-79. ÍR-ingar leiddu með níu stigum í hálfleik en Njarðvíkingar voru sterkari í síðasta leikhluta en það dugði ekki til sigur og Breiðhyltingarnir innbyrtu sigur 82-79.
Maciek Baginski skoraði mest fyrir Njarðvík og skilaði 19 stigum. Logi Gunnarsson skoraði 16 og Terrel Vinson var með 14 stig.
Logi skoraði 16 stig gegn ÍR.