Flottir sigrar hjá Keflavík og Njarðvík
- Njarðvíkingar halda enn í vonina um að komast í úrslitakeppnina en þurfa hjálp frá Keflvíkingum
Njarðvíkingar unnu magnaðan sigur á spútnikliði ÍR í Ljónagryjunni og nágrannar þeirra úr Keflavík völtuðu yfir Þór Akureyri í TM höllinni í Keflavík, í næstu síðustu umferð deildarkeppni Domino's deildarinnar í körfubolta karla. Keflvíkingar eru öruggir með sæti í úrslitakeppninni en Njarðvíkingar verða að treysta á að nágrannar sínir vinni lokaleik sinn við ÍR og jafnframt verða þeir að vinna sinn lokaleik í deildarkeppninni.
Njarðvíkingar og ÍR háðu harða baráttu en þeir fyrrnefndu máttu alls ekki tapa leiknum. Lokatölur urðu 79-72 fyrir heimamenn. ÍR leiddi með 4 stigum í hálfleik en Logi nokkur Gunnarsson kom inn í þriðja leikhlutann með alvöru sýningu og skoraði fjóra þrista á stuttum kafla og það rétt dugði til að halda jöfnu við ÍR fyrir fjórða leikhlutann, 61-61. Með seiglu tókst heimamönnum að innbyrða sigur en ÍR skoraði ekki stig síðustu eina og hálfa mínútuna. Logi endaði með 23 stig og 5 stoðsendingar, Myron Dempsey var með 22/9 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 11/7 og Atkinson skoraði 9 stig. Heimamenn voru í mesta basli með hinn öfluga Quincy Hankins Cole sem skoraði 32 stig og tók 13 fráköst.
Keflvíkingar völtuðu yfir Þórsara frá Akureyri með tuttugu stigum, 97-77. Það var hraðlestarstíll yfir heimamönnum og þeir náðu 19 stiga forskoti áður en flautað var til leikhlés, 57-38. Amin Stevens var öflugur að venju og þegar yfir lauk hafði hann skilað 33 stigum í hús. Keflvíkingar voru hins vegar einnig með þriggja stiga sýningu í fyrri hálfleik og skoruðu þá úr 8 af 15 skotum sínum. Norðanmenn áttu ekkert svar við stórleik Keflvíkinga. Hörður Axel Vilhjálmsson fór á kostum og skoraði 26 stig og Magnús Már Traustason var með 15 stig.
Lokaumferðin verður spennandi en eins og fyrr segir þurfa Njarðvíkingar að sigra Þór Þorlákshöfn og vona að Keflvíkingar vinni ÍR.
Amin Stevens var að vanda mjög öflugur og skoraði 33 stig.
Hörður Axel var driffjöður í liði Keflavíkur og skoraði 26 stig auk þess að mata félaga sína með stoðsendingum.
Njarðvíkingar voru öflugir á áhorfendabekkjunum enda veitti ekki af þar sem stuðningsmenn ÍR eru þeir mögnuðustu í deildinni.