Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Flottasta fimleikahús landsins
Laugardagur 6. mars 2010 kl. 13:21

Flottasta fimleikahús landsins

Reykjanesbær afhenti í gær Fimleikadeild Keflavíkur formlega nýtt æfingahúsnæði fyrir starfsemi sína í Íþróttaakademíunni í Krossmóa. Gerðar hafa verið breytingar á húsnæði akademíunnar sem áður hýsti heilsuakademíu Keilis, miðstöð vísinda og fræða en hún hefur nú verið flutt að Ásbrú þar sem önnur starfsemi fer fram. Til stóð að byggja nýtt fimleikahús fyrir efnahagshrunið en í kjölfar þess var tekin sú ákvörðun hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar að nýta húsnæði akademíunnar en til þess að húsnæðið gæti uppfyllt kröfur fimleikadeildarinnar var gerð gryfja í íþróttasal og tækjabúnaður endurnýjaður að hluta. Að auki hefur deildin til umráða upphitunar- og leikrými og speglasal. Framkvæmdir við húsnæðið og flutningarnir hafa gengið vel og hafa margir lagt hönd á plóg m.a. foreldrar iðkenda fimleikadeildarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fimleikaþjálfarar hafa haldið því fram að nýja fimleikahúsið í Reykjanesbæ sé flottasta fimleikahús landsins og aðstæður þar eins og best gerist.


Í dag eru iðkendur í Fimleikadeild Keflavíkur samtals 350 á aldrinum 3 - 40 ára. Vegna húsnæðisþrenginga var biðlisti orðinn langur hjá deildinni en við flutninginn í nýtt húsnæði var hægt að eyða honum. Nú er þó komin aftur 20 manna biðlisti og helgast hann af þjálfaraskorti. Alls starfa 18 þjálfarar og 7 aðstoðarþjálfarar hjá fimleikadeildinni sem einnig býður upp á fullorðinsfimleika fyrir 18 ára og eldri og nýjasta æðið sem er Parkour sem kalla má götufimleika. þar er mikil aðsókn, sérstaklega hjá ungum drengjum sem hafa ekki fundið sig í öðrum íþróttagreinum. Mikil aðsókn er í krakkahópa og  nú er mögulegt í fyrsta sinn að taka á móti börnum sem verða 3 ára á árinu.


Mynd: Frá æfingu í fimleikahúsinu í gær. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi