Flóðgáttirnar brustu
Mörkunum rigndi inn í KR markið í gærkvöldi þegar Grindvíkingar kjöldrógu gesti sína úr vesturbænum 5-0. Stórsigurinn kom þó ekki áfallalaust því Sigurði Jónssyni þjálfara Grindavíkur var vísað frá leikvelli eftir orðaskak við annan aðstoðardómara leiksins og mun því ekki stjórna liðinu gegn FH. Eftir sigurinn eru Grindvíkingar komnir í 2. sæti Landsbankadeildarinnar með 13 stig, sjö stigum á eftir topplið FH en liðin mætast í toppslag n.k. miðvikudag á Kaplakrikavelli.
Gestirnir hófu leikinn af krafti og pressuðu stíft á Grindavík og á 10. mínútu átti Sandgerðingurinn Grétar Hjartarson fyrsta marktækifæri leiksins er hann skallaði boltann beint í fangið á Colin í Grindavíkurmarkinu.
Vörn Grindavíkur var fremur bragðdauf í upphafi leiks og gerðust varnarmenn liðsins nokkrum sinnum sekir um kæruleysisgang er þeir voru að dúlla sér með boltann undir hamagangspressu KR-inga.
Heimamenn náðu loks að vinna úr pressu KR og tókst að koma spili upp í sínum leik og á 26. mínútu stakk Jóhann Þórhallsson boltanum inn á Mounir Ahandour sem skaust eins og elding eftir knettinum og lagði hann fram hjá Kristjáni í markinu. Boltinn hafði viðkomu í stönginni áður en hann dansaði í netmöskvanum og staðan því Grindavík 1-0 KR.
Fram að markinu virtust KR-ingar eiga meira í leiknum en eftir markið tóku Grindvíkingar öll völd á vellinum. Aðeins fjórum mínútum eftir markið frá Mounir fékk Paul McShane boltann inni í teig og gerði annað mark Grindavíkur og þar við sat í hálfleik. Grindavík 2-0 KR.
Þegar skammt var liðið af seinni hálfleik brá Óskar Örn Hauksson undir sig besta fætinum og breytti stöðunni í 3-0 eftir gott samspil við Jóhann Þórhallsson og allur vindur úr gestunum. Grindavík 3-0 KR.
Á 60. mínútu var svo komið að markahróknum Jóhanni Þórhallssyni þegar hár bolti kom yfir KR vörnina. Jóhann tók við knettinum og hljóp af sér tvo varnarmenn áður en hann lagði boltann fram hjá Kristjáni sem enn átti eftir að sækja boltann einu sinni enn í markið. Grindavík 4-0 KR.
Jóhann var aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar löng sending kom upp völlinn, Jóhann og Kristján markvörður áttu þá kapphlaup um hvor næði fyrr til boltans og útkoman varð fimmta mark Grindavíkur og sjöunda mark Jóhanns í deildinni. Grindavík 5-0 KR og sannkallaður stórsigur í höfn en Grindvíkingar gerðu mest þrjú mörk í einum leik á síðustu leiktíð og það var gegn Fram þann 28. ágúst er Grindavík hafði betur 3-1.
Gulir og glaðir eru nú í 2. sæti deildarinnar og mæta toppliði FH í næsta leik en Grindavík tapaði alls 13-1 gegn FH í Landsbankadeildinni 2005. Ef vörn Grindavíkur verður jafn þétt og hún hefur verið að undanförnu þarf nánast kraftaverk til þess að hún fái á sig 13 mörk í tveimur leikjum þetta tímabilið.
Sigurður Jónsson, þjálfari Grindavíkur, verður ekki með liðið gegn FH eftir brottvísun í gær en samkvæmt heimildum Víkurfrétta var Sigurði vísað af velli fyrir þessi orð: „Þetta er aldrei rangstaða,“ þessi orð féllu eftir að rangstaða var ranglega dæmd á Jóhann Þórhallsson í stöðunni 5-0. Sigurður tekur því út leikbann gegn FH fyrir, að því er virðist, þungan dóm.
Staðan í deildinni
Sjá myndasafn frá leiknum
Sjá videoviðtöl við Sigurð Jónsson og Óskar Örn Hauksson eftir leikinn á VefTv Víkurfrétta