Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fljótt að telja þegar jafntefli verða að sigrum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 24. ágúst 2024 kl. 12:07

Fljótt að telja þegar jafntefli verða að sigrum

Haraldur Guðmundsson þjálfari Keflavíkur ánægður með gengi liðsins að undanförnu

„Við höfum náð að breyta jafntefli yfir í sigurleiki, það er fljótt að telja,“ segir Haraldur Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur í knattspyrnu en eftir dapra byrjun í Lengjudeildinni þar sem stigasöfnunin var ekki nema 12 stig úr ellefu leikjum, hafa Keflvíkingar bætt 19 stigum við í sjö leikjum í seinni umferðinni, hafa unnið sex leiki og gert eitt jafntefli.

Hvað veldur þessum viðsnúningi?

„Við vorum með ansi marga leikmenn meidda á sama tíma í upphafi móts og þegar þeir þeir fóru að koma til baka auk þess sem við bættum við okkur krótíska framherjanum Mihael Mladen í glugganum, þá fór okkur að ganga betur. Spilamennskan var samt ekkert slæm, við misstum marga leiki niður í jafntefli og það stig telur ansi lítið þegar allt kemur til alls. Við vorum meira bikarlið til að byrja með, slógum út Bestu deildarliðin Breiðablik og ÍA en gengið í deildinni á þeim var ekki upp á það besta en ég var nokkuð rólegur, þóttist vita að við myndum bæta okkur þegar menn kæmu til baka úr meiðslum því þá eykst líka samkeppnin á æfingum.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver voru markmiðin fyrir tímabilið og hvernig sér Haraldur lokasprettinn fyrir sér?

„Markmið okkar var í raun að fara í alla leiki til að vinna þá og ef það myndi skila okkur sæti í efstu deild þá væri það gott. Ég fann og finn ekki fyrir neinni pressu, ef við komumst upp aftur þá verður það frábært en annars tökum við bara því sem að höndum ber. Við eigum fjóra erfiða leiki eftir, næst er það útileikur á móti Þrótti í Reykjavík á laugardaginn, við gerðum jafntefli við þá í fyrri umferðinni. Svo eigum við topplið Eyjamanna, löbbum svo yfir í Njarðvík og mætum grönnum okkar og mætum svo Fjölni sem er í öðru sæti. Þetta eru allt hörkuleikir og ómögulegt að spá fyrir um framhaldið. 

Ég er ekki hrifinn af þessu fyrirkomulagi að eitt lið fari beint upp og svo útsláttarkeppni næstu fjögurra um eitt sæti, frekar myndi ég vilja láta tvö lið fara beint upp og liðið í þriðja sæti myndi mæta liðinu í 10. sæti í Bestu deildinni. Við tökum á þessu þegar þar að kemur en það er alltaf best að einbeita sér bara að næsta leik, við mætum grimmir til leiks á móti Þrótturum á laugardaginn,“ sagði Haraldur að lokum.