Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjörugt jafntefli í Keflavík
Föstudagur 24. júní 2005 kl. 03:27

Fjörugt jafntefli í Keflavík

Keflavík og Fylkir skildu jöfn í spennandi og skemmtilegum leikn í Landsbankadeild karla í kvöld, 2-2. Liðin voru jöfn að stigum í 3.-4. sæti deidarinnar fyrir leikinn.

Leikurinn hófst nokkuð fjörlega þar sem liðin áttu bæði hálffæri á upphafsmínútunum, en Gunnar Þór Pétursson, bakvörður Fylkis, opnaði leikinn með sjálfsmarki á 7. mín eftir að hafa rennt sér í bolta sem Stefán Örn Arnarson renndi inn í teiginn af stuttu færi.

Stefán átti prýðisleik og virðist falla afar vel inn í lið Keflavíkur, en hann kom til liðsins að láni frá Víkingi fyrir skemmstu. Hann var sífelld ógn með hraða sínum og harðfylgni.

Eftir markið sóttu Keflvíkingar mun meira og áttu nokkrar atlögur að marki Fylkis. Guðmundur Steinarsson átti m.a. lúmskt skot af löngu færi sem lak framhjá markinu.

Eftir tæplega hálftíma leik jafnaði Hrafnkell Helgason þó metin fyrir Fylki, nokkuð gegn gangi leiksins. Björgólfur Takefusa braust í gegnum vörnina inn í teig þar sem Magnús Þormar varði vel frá honum, en boltinn hrökk til Hrafnkels sem átti ekki í vandræðum með að smella honum í autt markið.

Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir það, en Stefán var enn á ferðinni á 42. mínútu þegar hann kom Keflavík yfir á ný. Guðmundur Steinarsson tók aukaspyrnu úti á miðjum vallarhelmingi Fylkismanna, en þrátt fyrir að Guðmundur hafai tekið betri spyrnur í sumar náði Bjarni í marki Fylkis ekki að grípa boltann sem kom skoppandi að honum í gegnum teiginn. Hólmar Örn Arnarson kom aðvífandi og skaut aftur, beint í Bjarna, en þaðan hrökk boltinn til Stefáns sem afgreiddi boltann í netið af markteig með skringilegu skoti.

Viktor Bjarki Arnarson fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn fyrir hlé en Bjarni Sæmundsson bjargaði skoti hans á marklínu.

Fylkismenn juku pressuna í upphafi síðari hálfleiks og Keflvíkingar sluppu með skrekkinn þegar Björgólfur braust inn fyrir á ný og vippaði yfir Magnús Þormar og rétt yfir markið á 52. mínútu. Stuttu síðar þurfti Magnús að yfirgefa völlinn vegna meiðsla sem hann varð fyrir í samstuðu við Björgólf fyrr í leiknum og Ómar Jóhannsson kom inná í hans stað.

Sóknarþungi Fylkis bar loks árangur á 63. mínútu þegar Helgi Valur Daníelsson átti stórglæsilega langa sendingu inn í teig Keflavíkur þar sem varamaðurinn danski Christian Christianssen stökk manna hæst. Hann skallaði boltann í netið framhjá Ómari og jafnaði leikinn 2-2.

Eftir markið bökkuðu liðin bæði og beittu skyndisóknum sem skiluðu Fylkismönnum mun betri færum og má þakka Ómari fyrir að ekki fór ver því hann varði meistaralega frá Viktori Bjarka þegar 1 mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma. Viktor skaut af vítateigslínunni efst upp í hægra hornið en Ómar var sem köttur í markinu og sló boltann frá.

Segja má að úrslitin hafi verið sanngjörn því bæði liðin voru að koma sér í færi og áttu sínar rispur, en augljóst er að Keflvíkingar verða að stoppa í götin í vörninni þar sem liðið hefur ekki haldið hreinu í deildarleik síðan í júlí á síðasta ári.

Kristján Guðmundsson, þjálfari, tekur undir slíkar hugmyndir. „Við erum að skora mörk, en fáum líka alltaf á okkur mörk. Við erum að vonast til að bæta við okkur hafsent í júlí og munum fylgjast vel með markaðnum. Það er erfitt að búa til nýja vörn á miðju móti og það er í raun fáránleg staða en þetta hefur gengið ágætlega hingað til. Þetta sleppur allaveganna.“

Keflvíkingar verða heppnir ef væntanlegur liðsstyrkur í vörninni verður eitthvað í líkingu við áhrifin sem nýliðinn Stefán Örn Arnarson hefur haft á liðið. Hann var sífelld ógn allan leikinn og hélt varnarmönnum Fylkis við efnið fá fyrstu mínútu. Hann sagðist ánægður með lífið í Keflavík. Þegar þjálfarinn ber fullt traust til manns fer sjálfstraustið á fullt hjá manni. Það hefur alltaf verið minn stíll að berjast 100%. Ég hef hraða og baráttuanda til að skora mörk og ég lofa því að ég á eftir að skora fullt af mörkum fyrir Keflavík í sumar!“

Staðan í deildinni

VF-myndir/Hilmar Bragi, ATH! Myndasafn úr leiknum má finna efst á síðunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024