Fjórir Grindvíkingar á leið til Kína
Í gærmorgun fór íslenska landsliðið í körfubolta til Kína í æfingaferð í boði kínverska körfuknattleikssambandsins. Fjórir Grindvíkingar eru með í för, leikmennirnir Ólafur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson, aðstoðarþjálfarinn Helgi Jónas Guðfinnsson og fararstjórinn Eyjólfur Þór Guðlaugsson. Liðið leikur tvo leiki gegn heimamönnum.
Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson dró sig úr hópnum á síðustu stundu vegna veikinda en hann leikur með liði Sona Vikings í Svíþjóð.
Kínverska körfuknattleikssambandið greiðir allan kostnað vegna fararinnar, það er öll flug, ferðalög milli keppnisstaða, gistingu og fæði. Þetta er í annað sinn á 6 árum sem kínverska körfuknattleikssambandið býður því íslenska til Kína. Kína bar sigur á Íslandi í báðum leikjunum í ágúst 2005.
Kína lítur á Ísland sem góðan kost í sínum undirbúningi fyrir Asíuleikana sem fara fram seinna í september þar sem leikstíll okkar er ekki ósvipaður og hjá sumum af andstæðingum kínverska liðsins á leikunum. Markmið Kína er að komast á Olympíuleikana í London 2012.
Það verður talsvert ferðalag á hópnum innan Kína þar sem m.a. þarf að fljúga í tveimur flugum til að komast til borgarinnar þar sem seinni leikurinn fer fram.
Fyrri leikur liðsins fer fram föstudaginn 9. september í Xuchang City en seinni leikurinn fer fram sunnudaginn 11. september í Loudi City.