Fjörið hefst í kvöld í Grindavík
Í kvöld hefst úrslitarimma karla í Iceland Express-deildinni í körfubolta. Deildarmeistarar Grindavíkur taka þá á móti nýliðum Þórs en liðin hafa háð spennandi leiki á tímabilinu þar sem Þórsarar hafa haft yfirhöndina. Báðir deildarleikir liðanna hafa endað með sigri Þórs en Grindvíkingar hafa heimaleikjarétt í rimmunni.
Grindvíkingar sigruðu Þórsara í Lengjubikarnum 80-66 en þar fór liðið sem kunnugt er alla leið og hampaði bikarnum.
Í byrjun desember sigruðu nýliðarnir Grindvíkinga á þeirra eigin heimavelli með 4 stigum, 76-80. Liðið varð þar með fyrst liða til að leggja Grindvíkinga í deildinni. Þórsarar sigruðu svo nýkrýnda deildarmeistara Grindavíkur í byrjun mars, 79-69, í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn. Grindavík var þá búið að vinna tíu deildarleiki í röð fyrir þann leik.
Grindvíkingar enduðu með 38 stig í efsta sæti deildarinnar og sigruðu Njarðvíkinga og Stjörnuna á leið sinni í úrslitin. Þórsarar höfnuðu í 3. sæti deildarinnar með 30 stig en á leið sinni í úrslit lögðu þeir Snæfell og KR.
Leikurinn í Röstinni í kvöld verður vafalaust spennandi en hann hefst venju samkvæmt klukkan 19:15.