Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 20. mars 2001 kl. 09:39

Fjör í minniboltanum

Samkaupsmótið, hið árlega minniboltamót sem unglingaráð Keflavíkur og Njarðvíkur halda sameiginlega, fór fram um síðustu helgi. Mótið er fyrir drengi og stúlkur 11 ára og yngri og að þessu sinni léku 11 ára drengirnir í íþróttamiðstöðinni í Njarðvík en 11 ára stúlkur og yngri og 10 ára og yngri drengir léku í íþróttahúsinu í Keflavík.
Aldrei hafa fleiri tekið þátt í mótinu og voru 360 börn mætt að þessu sinni frá 9 félögum. Auk gestgjafanna voru Grindvíkingar, Sandgerðingar, Hrunamenn, Fjölnismenn, Valsmenn, Breiðablik og Stjarnan mætt til leiks. Alls voru 49 lið frá þessum félögum og öll lið léku 5-6 leiki, samtals 130 leikir á tveimur dögum.
Auk leikjanna gátu krakkarnir farið í sundlaugarnar í Reykjanesbæ, bíó í Nýja bíó, kvöldvaka var haldin á laugardagskvöldið undir stjórn Guðmundar Bróa Sigurðssonar, og þar var auk ýmissa leikja, spilaður stjörnuleikur tveggja liða þar sem einn þátttakandi frá hverju félagi var valinn og auk þess léku í liðunum leikmenn úr meistaraflokksliðum Keflavíkur og Njarðvíkur. Logi Gunnarsson, Falur Harðarsson, Gunnar Stefánsson, Brenton Birmingham og Jes Hansen léku og dómararnir voru lukkudýr Keflvíkinga og Njarðvíkinga, þeir Keli Keflvíkingur og Ljónið. Á sunnudag var svo pizzuveisla og lokaathöfn þar sem þátttakendur fengu viðurkenningu fyrir þátttökuna í Samkaupsmótinu 2001.
Forráðamenn félaganna voru ánægðir með mótið í ár og gaman að sjá allan þennan fjölda barna saman kominn þar sem öll athyglin beinist að því að hafa gaman, og sigur skiptir engu. Þó hefðu fleiri félög mátt vera mætt til leiks því það eru ekki mörg tækifærin sem gefast til að fara á mót sem þessi. Þáttur foreldra er einnig stór í þessu móti. Það er ljóst að reynsla margra foreldra, sem hafa verið að koma ár eftir ár, hjálpar til í stóru móti eins og þessu.
Að lokum vilja Unglingaráð Keflavíkur og Njarðvíkur þakka öllum þeim eru komu að mótinu fyrir stuðninginn. Það þarf margar hendur til að svo umfangsmikið mót gangi upp og þá ber að þakka aðalstyrktaraðilanum Samkaup fyrir frábært samstrarf. En fleiri aðilar komu að mótinu, eins og Mamma Mía, Aðstoð, Nýja Bíó, Víkurfréttir, Leppin, Íþróttafultrúi Reykjanesbæjar, SBK, Holtaskóli og þeir fjölmörgu er sáu um dómgæslu og er þeim öllum hér með þakkað fyrir þeirra framlag.
Fyrir hönd Unglingaráða í Keflavík og Njarðvík Einar Árni Jóhannsson, mótsstjóri.

Að þessu sinni var sett upp heimasíða til að auglýsa mótið og má sjá myndir frá mótinu á þeirri síðu. Veffangið er www.geocities.com/krakkabolti/
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024