Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjölmenn sveit Njarðvíkinga tryggði grænum sæti í úrslitum
Þriðjudagur 29. mars 2011 kl. 21:58

Fjölmenn sveit Njarðvíkinga tryggði grænum sæti í úrslitum


 
Njarðvík er komið í úrslit Iceland Express deildar kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 67-74 sigur á Hamri í oddaviðureign liðanna í undanúrslitum. Njarðvík mætir sveitungum sínum úr Keflavík í úrslitaseríunni en grænar fengu myndarlegan stuðning í kvöld, settu í lás í síðari hálfleik þar sem þær héldu Hamri í 27 stigum á 20 mínútum og fögnuðu vel og innilega með stuðningsmönnum sínum í leikslok.

Njarðvíkingar gerðu fjögur fyrstu stig leiksins áður en Íris Ásgeirsdóttir kom deildarmeisturum Hamars á blað eftir rétt rúmlega tveggja mínútna leik. Njarðvíkingar slitu sig þó frá 2-7 eftir þrist frá Fields áður en Hvergerðingar rönkuðu við sér og jöfnuðu leikinn 13-13 þegar Fanney Guðmundsdóttir skoraði eftir sóknarfrákast.
 

Leikurinn fór vel af stað og var allur fyrri hálfleikur hin besta skemmtun frammi fyrir troðfullu húsi þar sem áhorfendur létu vel í sér heyra. Dita Liepkalne kom Njarðvíkingum í 17-18 með þriggja stiga körfu og Shayla Fields átti svo lokaorðið fyrir gestina með körfu og fékk villu að auki svo grænar leiddu 19-22 eftir fyrsta leikhluta þar sem Jaleesa var með 11 stig hjá Hamri og Ólöf Helga 6 í Njarðvíkurliðinu.
 

Auður Jónsdóttir opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu en Hamar seig á og jafnaði metin 29-29 með því að herða tökin í vörninni. Jaleesa Butler átti flottar rispur fyrir Hamar í öðrum leikhluta og kom Hamri í 33-31 þegar Eyrún Líf Sigurðardóttir kom fersk af Njarðvíkurbekknum, braust í gegn og skoraði og fékk villu að auki. Skömmu síðar fékk Kristrún Sigurjónsdóttir sína þriðju villu í liði Hamars en þessi frábæri leikmaður komst því miður aldrei í takt við leikinn í kvöld.
 

Íris Ásgeirsdóttir kom Hamri í 40-38 með þriggja stiga körfu þegar 24 sekúndur voru til hálfleiks en Shayla Fields átti lokaorðið, braust í gegnum Hamarsvörnina, skoraði og fékk villu að auki, setti niður vítið og Njarðvíkingar leiddu 40-41 í hálfleik. Jaleesa Butler var með 17 stig og 5 fráköst hjá Hamri í hálfleik og þær Julia Demirer og Shayla Fields voru báðar með 10 stig hjá Njarðvíkingum.
 

Shayla Fields virtist aðeins geta sett niður stórar körfur fyrir Njarðvíkinga í þriðja leikhluta, fyrst þrist sem breytti stöðunni í 44-46 og síðar í 46-51 en á sama tíma var Jaleesa Butler allt í öllu sóknarmegin hjá heimakonum.
 

Njarðvík vann þriðja leikhluta 12-14 þar sem liðin virtust á löngum köflum ekki geta keypt stig. Þá var skotnýting Hamars með versta móti fyrir utan í kvöld, aðeins 2 af 19 í þriggja stiga skotum. Njarðvíkinga rleiddu 52-55 að loknum þriðja leikhluta þar sem Ólöf Helga átti lokaorðið fyrir gestina með sterku gegnum broti og lagði boltann í spjaldið og ofan í.
 

Hvergerðingar hófu fjórða leikhluta í svæðisvörn og byrjuðu 4-0 og komust því yfir 56-55 þegar Shayla var enn á ferðinni fyrir Njarðvíkinga með stóra körfu, þristur og staðan 56-58 fyrir Njarðvík. Eftir fyrstu fjögur stig Hamars í leikhlutanum settu Njarðvíkingar í lás í vörninni, Hamar skoraði ekki í tæpar fimm mínútur í leikhlutanum og sóknarleikurinn var hugmyndasnauður gegn sterkri vörn gestanna. Hamar var þó aldrei langt undan og í stöðunni 58-64 voru þrjár mínútur til leiksloka og allt á suðupunkti.


Sama hvað deildarmeistarar Hamars reyndu þá fóru skotin ekki niður og vörnin hélt ekki nægilega, Njarðvíkingar sigu smátt og smátt framúr og í stöðunni 60-66 nær Julia Demirer að koma inn körfu fyrir gestina og staðan 60-68 þegar mínúta var til leiksloka. Þessi mínúta reyndist nóg fyrir Njarðvíkinga til þess að landa sigrinum og lokatölur reyndust 67-74 Njarðvík í vil.
 

Njarðvík og Keflavík munu því leika um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna þetta tímabilið og þarf ekki að fjölyrða um reynslumun liðanna í rimmum á borð við þær sem framundan eru. Njarðvíkingar hafa þó sýnt að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin enda voru þær að leggja Hamar sem eru ríkjandi deildarmeistarar.
 

Heildarskor:

 
Hamar: Jaleesa Butler 34/11 fráköst/4 varin skot, Slavica Dimovska 10/4 fráköst/11 stoðsendingar, Íris Ásgeirsdóttir 9/4 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir 8/8 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 4, Kristrún Sigurjónsdóttir 2, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0, Kristrún Rut Antonsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0, Guðbjörg Sverrisdóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Adda María Óttarsdóttir 0.
 

Njarðvík : Shayla Fields 25/7 fráköst, Julia Demirer 14/15 fráköst/3 varin skot, Dita Liepkalne 13/10 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 10, Eyrún Líf Sigurðardóttir 5, Auður R. Jónsdóttir 5, Ína María Einarsdóttir 2, Jóna Guðleif Ragnarsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0.
 

Dómarar:
Björgvin Rúnarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Byrjunarliðin:
 
Hamar:
Slavica Dimovska, Kristrún Sigurjónsdóttir, Íris Ásgeirsdóttir, Fanney Guðmundsdóttir og Jaleesa Butler.
 
Njarðvík:
Shayla Fields, Ína María Einarsdóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Dita Liepkalne og Julia Demirer.
 

Umfjöllun og myndir/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024