Fjármögnuðu utanyfirgalla fyrir iðkendur Þróttar Vogum
- Stofnfiskur styður barna- og unglingastarf Þróttar Vogum
Barna- og unglingastarfið hjá Þrótti Vogum fékk glæsilegan styrk á dögunum frá Stofnfiski þegar allir iðkendur í knattspyrnu, júdó og sundi hjá Þrótti, fengu gefins utanyfirgalla sem þau munu vera í á mótum og leikjum.
Stofnfiskur, sem er með starfsemi í bæjarfélaginu, vildi leggja sitt af mörkum til stuðnings við heilsueflandi samfélag og ákvað að styrkja barnastarfið með veglegum styrk handa iðkendum til kaupa á utanyfirgalla.
Marteinn Ægisson hjá Þrótti í vogum segir þetta dýrmæta gjöf fyrir félagið, því að mæta til keppni sem eitt lið, ein Þróttara-fjölskylda, eflir samheldnina og liðsheildina hjá félaginu.
„Þetta er frábær stuðningur við það starf sem fram fer hjá félaginu og rausnarlegur styrkur sem við hjá Þrótti erum afar þakklát fyrir,“ segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, í samtali við Víkurfréttir. Stofnfiskur á mikinn þátt í þeim uppgangi sem hefur átt sér stað hjá félaginu undanfarin árin. Fyrirtækið hefur styrkt knattspyrnudeildina síðustu ár með fjárframlagi sem hefur hjálpað til við að styðja við uppgang meistaraflokks félagsins. Einnig kom Stofnfiskur að byggingu stúkunnar við Vogabæjarvöll á sínum tíma. „Það er okkur ómetanlegt að geta leitað til þeirra með verkefni sem stuðla að frekari eflingu félagsins,“ segir Marteinn.
Stofnfiskur leggur til 80% af kostnaðinum og foreldrafélagið hjá Þrótti er að koma með 20% af fjármagninu í verkefnið. Á foreldrafélagið miklar þakkir skilið fyrir alla þá vinnu að láta verkefnið ganga upp að sögn Marteins.
Guðbjörg Jónasdóttir hjá Stofnfiski segir að það sé mikilvægt að styðja við bakið á íþróttalífinu í Vogum og Stofnfiskur vildi með þessum hætti styðja við bakið á félaginu, yngri iðkendum og foreldrafélaginu hjá Þrótti. Forvarnargildi íþrótta er mikið og þess vegna eigi að styðja vel við þann málaflokk.
„Við höfum alltaf litið á okkur sem Þróttara, þetta er félagið okkar. Við þurfum að hlúa að félaginu og fólkinu sem gerir félagið svona frábært eins og það er,“ sagði Guðbjörg að lokum.