Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fitness og fótbolti í eina sæng
Fimmtudagur 29. nóvember 2007 kl. 19:19

Fitness og fótbolti í eina sæng

Sæluríkir dagar eru framundan hjá þeim Haraldi Frey Guðmundssyni og Freyju Sigurðardóttur. Nýverið eignuðst Haraldur og Freyja saman sitt fyrsta barn og þann 14. desember munu þau ganga í hjónaband. Það eru því viðburðaríkir dagar hjá þessari myndarlegu fjölskyldu en fyrir á Freyja soninn Jökul Mána. Hin fjögur fræknu búa saman í Álasundi í Noregi þar sem Haraldur leikur sem atvinnumaður með Aalesund sem hafnaði í 11. sæti norsku úrvalsdeildarinnar í ár. Víkurfréttir ræddu við Harald um fótboltann og þessa umrótatíma í lífi hans.

 

Enn á eftir að skíra nýjasta fjölskyldumeðliminn en það verður gert sama dag og Haraldur og Freyja gifta sig. Frumburður þeirra verðandi hjóna kom í heiminn þann 12. nóvember síðastliðinn og var 18 merkur og mun Jökull stóri bróðir vera ákaflega stoltur þessa dagana. Haraldur segir það gott að ala upp börn í Álasundi og kveðst ekki myndu rífa fjölskylduna upp í Noregi til að leika með öðru liði þar í landi. Eitthvert gott tilboð um að spila í annarri og stærri deild þyrfti að koma til.

„Við höfum það mjög gott í Álasundi og höfum verið með Jökul þarna í tvö ár og það hefur gengið vel. Nýverið keyptum við okkur hús í bænum og þá er Freyja með einkaþjálfun í nálægri líkamsræktarstöð,“ sagði Haraldur. Hann segir alla aðstöðu hjá knattspyrnuliðinu til mikillar fyrirmyndar þrátt fyrir að klúbburinn sé ungur að árum sem úrvalsdeildarlið. „Við eigum stórglæsilegan heimavöll sem er fullur á öllum heimaleikjum eða um 11 þúsund áhorfendur. Vel er staðið að öllu í kringum klúbbinn og öll æfingaaðstaða til fyrirmyndar,“ sagði Haraldur sem er einn af burðarásum liðsins.

 

Aalesund lauk keppni í 11. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð. Liðið hafði níu sigra á leiktíðinni, þrjú jafntefli og 14 ósigra. Slæm byrjun kom Aalesund í erfiða aðstöðu.

„Við komum inn í deildina sem nýliðar og að enda í 11. sæti verður að teljast viðunandi árangur fyrir okkur. Við byrjuðum skelfilega og vorum aðeins með eitt stig eftir sex umferðir,“ sagði Haraldur sem meiddist í fyrsta leik og missti af næstu þremur leikjum liðsins. „ Í sjöundu umferð kom svo loks okkar fyrsti sigur. Í seinni umferðinni gekk okkur mun betur í deildinni og náðum að gera heimavöllinn að þeirri gryfju sem hann á að vera og unnum t.d. sex heimaleiki í röð.“

 

Haraldur segir nokkra sátt vera með árangur liðsins en að stefnan sé að gera betur á næstu leiktíð og hefur liðið fengið nýjan þjálfara. „Sören Akeby tók við liðinu núna í nóvember og hann hefur fundað tvívegis með okkur og það eru miklar vonir bundnar við hann. Akeby stýrði t.d. Djurgarden tvisvar sinnum til meistaratitils í Svíþjóð og leggur mikið upp úr góðu líkamlegu ástandi leikmanna sinna,“ sagði Haraldur og bjóst við að undirbúningstímabilið yrði strangt.

 

Haraldur á tvö ár eftir af samningi sínum við norska liðið en segist reiðubúinn að skoða önnur tilboð ef þau berast. „Ég er búinn að vera í þrjú ár sem erlendur leikmaður hjá Aalesund og almennt talið fyrir erlenda leikmenn er það bara nokkuð drjúgur tími hjá einu liði. Ég hef ekki heyrt um neinn áhuga hjá öðrum liðum fyrir mér en það eru ávallt lið sem eru með menn á sínum snærum sem skoða leikmenn út um allt,“ sagði Haraldur sem fylgist vel með Keflavíkurliðinu í boltanum hér heima og hefur sínar hugmyndir um liðið enda umrótatímar þar á bæ rétt eins og lífi Haraldar.

„Staðan hjá Keflavík mætti vera betri. Á næstu tveimur til þremur árum myndi ég vilja sjá betri aðstöðu hjá félaginu og fleiri sterkir einstaklingar þurfa að skila sér upp úr yngri flokkunum og inn í meistaraflokkinn. Ég hélt framan af sumri að Keflavík yrði í toppbaráttunni en svo varð ekki. Reyndar sá ég ÍA-Keflavík í 9. umferðinni og þetta mark sem þarna var skorað í leiknum var alveg fáránlegt,“ sagði Haraldur og bætti við að þegar Keflavík lá 3-2 í Krikanum gegn FH hefði honum fundist eins og allur vindur væri úr liðinu.

 

„Ef ég mætti ráða þá myndi rísa almennilegur völlur í Keflavík með glæsilegri stúku og gera þetta almennilega. Aðstaðan eins og hún er í dag er algerlega óviðunandi,“ sagði Haraldur og ljóst að hann ber enn sterkar tilfinningar til klúbbsins sem hann gengur með í hjartanu eins og hann sagði sjálfur.

 

„Annars er það brúðkaupið og skírnin sem á hug okkar allan þessa dagana og þar er í mörg horn að líta,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson atvinnumaður í knattspyrnu, nýbakaður faðir og verðandi eiginmaður.

 

Texti: Jón Björn Ólafsson [email protected]

Mynd: Þorgils Jónsson [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024