Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Final Countdown skilaði 54 stigum
Fimmtudagur 28. október 2004 kl. 09:44

Final Countdown skilaði 54 stigum

Rúnar Ingi Erlingsson fór heldur betur hamförum á dögunum þegar hann gerði 54 stig í leik með drengjaflokki Njarðvíkur. Liðið sem drengjaflokkur Njarðvíkur spilaði gegn skoraði einungis 13 stigum meira en Rúnar gerði upp á sitt einsdæmi, leikurinn endaði 67-150 Njarðvík í vil.

„Ég tók ekkert eftir því hvað ég væri búinn að skora mikið, þjálfarinn minn laug því að mér að ég ætti fjögur stig eftir í 30 stigin þegar 2 mínútur voru eftir af leiknum,“ sagði Rúnar. „Undir lokin var þetta bara orðið sjálfvirkt, ég bara tók skot og það datt ofan í, sjálfstraustið var orðið mjög mikið en ég fékk hálfgert sjokk þegar ég frétti hversu mikið ég var búinn að skora,“ sagði Rúnar.

Aðspurður segir Rúnar að það sé ekkert voðalega gaman að spila svona leiki en það sé örugglega ívið verra að tapa svona stórt.

Rúnar Ingi leikur líka með 10. flokk Njarðvíkur sem er einn sigursælasti yngri flokkur félagsins frá upphafi. Þeir hafa m.a. unnið Scania Cup í Svíþjóð tvisvar sinnum og hafa unnið rúmlega 70 leiki í röð í sínum árgangi. „Í áttunda flokki byrjuðu leiðir að skiljast milli okkar og annarra liða, við sigruðum hvern leikinn á fætur öðrum með yfirburðum og erum enn að,“ sagði þessi bráðefnilegi strákur.

Rúnari langar til þess að fara í skóla í Bandaríkjunum að loknum 10. bekk og í augnablikinu er verið að vinna í þeim málum fyrir hann. Ef það gengur ekki upp ætlar Rúnar að fara í F.S. og reyna fyrir sér í meistaraflokki Njarðvíkur.

Margt smátt…
Fyrirmyndin:
Brenton Birmingham
Uppáhalds leikari: Denzel Washington
Uppáhalds hljómsveit: Metallica
Besti þjálfari: Einar Árni Jóhannsson
Liðið í enska boltanum: Manchester United
Númer hvað spilar þú: 9

Ert þú hjátrúarfullur fyrir leiki?
Já, ég keppi oftast í sömu sokkunum og hlusta á Final Countdown með Europe og þá er maður í toppmálum.

VF-mynd/ Jón Björn 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024