Fimmti sigurleikurinn í röð hjá Grindavík
Grindavík vann í gær þýðingarmikinn sigur á Stjörnunni í Iceland Express deild karla. Liðin eru þar með jöfn að stigum, bæði með 26 stig, en Grindvíkingar hafa betur innbyrðis. Leikurinn fór fram í Ásgarði og úrslit urðu 81 – 76. Þetta var fimmti sigurleikur Grindavíkinga í röð og eru þeir til alls líklegir.
Grindavíkingar leiddi 16-15 eftir fyrsta leikhluta. Stjörnumenn komu einbeittir í annan fjórðung og komust í 28-21. Grindvíkingar skiptu í svæðisvörn og voru við það að jafna metin þegar Justin Shouse tók góðan sprett í lok fyrri hálfleiks þannig að Stjarnan hafði 4ra stiga forystu í hálfleik, 36-32.
Mikil spenna og barátta hljóp í leikinn í seinni hálffleik. Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta en Stjörnunni tókst þó að ljúka honum með þriggja stiga forystu, 59-56.
Grindvíska seiglan kom vel í ljós í fjórða leikhluta og með yfirveguðum leik tókst Grindvíkingum að komast í 76 -72 þegar um hálf mínúta var eftir til leiksloka. Var eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir þá.
Páll Axel Vilbergsson var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 24 stig. Darrel Flake skoraði 18 stig og 8 fráköst.
Nánari lýsingu á leiknum er hægt að nálgast hér á karfan.is.
---
Mynd/Baráttujaxlinn Páll Axel Vilbergsson skoraði 24 stig fyrir Grindavík í gær.