Fimmti sigurinn í röð hjá Keflavík
Keflvíkingar sýna engin veikleikamerki í Subway-deild kvenna í körfuknattleik og hafa unnið alla sína leiki á tímabilinu. Botnliði ÍR var ekki sýnd nein miskunn í gær þegar þær mættu í Blue-höllina og Keflavík vann með 32 stiga mun, 72:40. Njarðvík lagði Breiðablik á sama tíma í Ljónagryfjunni 94:79 en Grindavík tapaði fyrir Val 72:80.
Keflavík - ÍR 72:40
(27:11, 20:17, 16:5, 9:7)
Keflavík tók afgerandi forystu í fyrsta leikhluta og lét hana aldrei af hendi. Leikurinn var ójafn en Keflvíkingar hafa unnið allar viðureignir sínar í deildinni á meðan ÍR-ingar eru enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri.
Ingunn Anna Svansdóttir skoraði sextán stig en Daniela Wallen var framlagshæst með 28 framlagspunkta og fjórtán stig skoruð.
Njarðvík - Breiðablik 94:79
(26:21, 21:23, 20:23, 27:12)
Raquel Laneiro fór fyrir Njarðvíkingum í gær með 34 stig, sex fráköst, fimm stoðsendingar og 39 framlagspunkta þegar Njarðvík lagði Breiðablik í hörkuleik. Það var allt hnífjafnt í Ljónagryfjunni (67:67) þegar fjórði leikhluti hófst en þá settu Njarðvíkingar í fluggírinn og skoruðu 27 stig gegn einungis tólf stigum gestanna.
Grindavík - Valur 72:80
(24:15, 15:17, 19:28, 14:20)
Grindvíkingar stóðu vel í Völsurum í HS Orkuhöllinni í gær og höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins en eftir því sem leið á leikinn fór að síga á ógæfuhliðina. Valur komst yfir um miðjan þriðja leikhluta en hafði aðeins tveggja stiga forskot þegar fjórði leikhluti hófst. Valsarar reyndur sterkari í lokaleikhlutanum og uppskáru átta stiga sigur að lokum.
Danielle Rodriguez og Elma Dautovic leiddu Grindavík í flestum þáttum, Rodriguez með nítján stig og 24 framlagspunkta en Dautovic með tuttugu stig og nítján framlagspunkta.