Fimm Suðurnesjapiltar í U15 sigurliði á alþjóðlegu móti
U15 ára drengjalandslið Íslands vann um helgina Copenhagen invitational sem er sterkt alþjóðlegt mót, haldið í Farum, rétt utan Kaupmannahafnar. Fimm Suðurnesjapiltar léku með íslenska liðinu, fjórir drengir frá UMFN léku en það eru þeir Elvar Már Friðriksson, Maciej Stanislav Baginski, Sigurður Dagur Sturluson og Valur Orri Valsson. Jens Valgeir Óskarsson var svo fulltrúi Grindvíkinga. Þjálfari liðsins er Einar Árni Jóhannsson yfirþjálfari yngri flokka UMFN.
Íslenska liðið vann alla fimm leiki sína á mótinu en leikið var í tveimur 5 liða riðlum og svo leikið um sæti. Þeir Elvar, Maciej, Jens, Dagur og Valur stóðu sig allir mjög vel í mótinu og má nálgast umfjöllun um hvern og einn leik liðsins á heimasíðu Körfuknattleikssambandsins. Þess má þó geta sérstaklega að Valur Orri Valsson var valinn í úrvalslið mótsins, Valur lék einkar vel og í úrslitaleiknum setti kappinn 11 stig og gaf fjölmargar stoðsendingar.
Mynd: Íslenska U15 liðið sem vann Copenhagen invitational; efri röð frá vinstri; Maciej Baginski (UMFN), Emil Karel Einarsson fyrirliði (Þór Þ), Stefán Karel Torfason (Þór Ak), Þorgrímur Kári Emilsson (ÍR), Adam Karl Helgason (KR), Hafsteinn Davíðsson (Hamar), Jens Valgeir Óskarsson (UMFG), Einar Árni Jóhannsson, þjálfari.
Neðri röð frá vinstri; Valur Orri Valsson varafyrlrliði (UMFN), Darri Freyr Atlason (KR), Martin Hermannsson (KR), Sigurður Dagur Sturluson (UMFN), Matthías Orri Sigurðarson (KR), Elvar Már Friðriksson (UMFN).