Fimm Suðurnesjalið léku í gær
Íslandsmótið í knattspyrnu heldur áfram og fimm leikir Suðurnesjaliða í þremur deildum fóru fram í gær:
Góður útisigur Njarðvíkinga
Njarðvíkingar gerðu góða ferð á Selfoss í annari umferð Íslandsmótins þar sem þeir mættu sterku liði Selfyssinga. Það voru heimamenn sem komust yfir á 29. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks tóku Njarðvíkingar langt innkast sem Marc McAusland flikkaði boltanum fyrir markið þar sem Atli Freyr Ottesen Pálsson skoraði með skalla og jafnaði leikinn.
Snemma í síðari hálfleik (49’) skoraði Kenneth Hogg og kom Njarðvíkingum yfir. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en þétt Njarðvíkurvörnin átti svar við öllum þeirra sóknartilburðum og ef Selfyssingar náðu að koma sér í færi sá Rúnar Gissurarson, markvörður Njarðvíkur, um að verja allt sem á markið kom.
Góður leikur hjá Njarðvík sem ætlar sannarlega að vera í toppbaráttu 2. deildar í ár.
Víðir með sigur á Ólafsfirði
Það var Guyon Philips sem skoraði sigurmark Víðismanna gegn KF þegar Víðir lék á Ólafsfirði í 2. deild karla í gær, laugardag. Markið kom á 10. mínútu og þar við sat.
Átta gul spjöld á loft þegar Þróttur gerði jafntefli heima
Mikill baráttuleikur var á Vogaídýfuvellinum þegar Þróttur tók á mót Kára í 2. deild karla í gær. Átta gul spjöld sem fóru á loft í leiknum sem liðin skiptu jafnt sín á milli. Það var á 42. mínútu sem Kári komst yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu.
Þróttarar byrjuðu seinni hálfleikinn með marki (47’), þar var Sigurður Gísli Snorrason að verki og einnig úr víti. Ekki voru fleiri mörk skoruð og Þróttur því enn án sigurs á Íslandsmótinu í ár.
Reynismenn með sigur í baráttuleik
Önnur umferð 3. deildar fór fram á Blue-vellinum í Sandgerði í gær þegar Reynir tók á móti Augnabliki. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu en heimamenn voru mun hættulegri í fyrri hálfleik, ekki bætti það úr skák fyrir gestina að missa mann út af eftir tuttugu mínútna leik. Fyrri hálfleikur var að líða undir lok þegar vörn Augnabliks opnaðist og Heiðar Ingi Þórisson varð fyrir því óláni að skora í eigið mark. Það var Barros hafi lagt grunninn að sókninni en hann er gríðarlega sterkur leikmaður, duglegur og skapandi fram á við og skapar oft usla við mark andstæðinganna. 1:0 í hálfleik fyrir Reyni og það urðu lokatölur leiksins.
Reynir er efst í 3. deildinni með fullt hús stiga en KFG eða Ægir geta náð þeim að stigum þegar þau mætast á mánudaginn.
Grindavíkurstúlkur lágu heima
Grindavík tók á móti sameinuðu lið Fjarðarbyggðar, Hattar og Leiknis í 2. deild kvenna í gær. Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu strax á 4. mínútu, þær austfirsku létu kné fylgja kviði og bættu tveimur mörkum við (14’ og 61’) og heimastúlkur komnar þrjú mörk undir. Grindavíkurstúlkur klóruðu í bakkann á 71. mínútu og minnkuðu muninn í tvö mörk, þar var að verki Unnur Stefánsdóttir. Þær fengu svo víti í uppbótartíma sem Una Rós Unnarsdóttir skoraði úr en lengra komust þær ekki og eru án stiga eftir tvær umferðir á Íslandsmótinu.
Hilmar Bragi brá sér á Vogaídýfuvöllinn og tók myndir úr leikj Þróttar og Kára eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni.
Nánar verður fjallað um leiki Suðurnesjaliðanna í næsta tölublaði Víkurfrétta.