Fimm Suðurnesjakonur í landsliðinu í undankeppni fyrir EM
Íslenska kvennalandsliðið leikur í nóvember sína fyrstu leiki í nýrri undankeppni fyrir EM, EuroBasket Women's 2025.
Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari, hefur valið þrettán leikmenn til að leika tvo leiki í undankeppni fyrir EM sem fara fram núna í nóvember. Fjórir Keflvíkingar eru í liðinu og einn Njarðvíkingur.
Dregið var í riðla í september og leikur Ísland í F-riðli keppninnar með Tyrklandi, Slóvakíu og Rúmeníu.
RÚV mun sýna báða leikina í beinni útsendingu, útileikinn 9. nóvember gegn Rúmeníu á RÚV og heimaleikinn 12. nóvember gegn Tyrklandi á RÚV2.
Heimaleikurinn 12. nóvember verður í Ólafssal í Hafnarfirði kl. 18:30. Aðgangur verður ókeypis í boði Lykils en Lykill hefur verið öflugur samstarfsaðili KKÍ í meira en tíu ár.
Tveir nýliðar eru í hópnum, þær Ísold Sævarsdóttir úr Stjörnunni og Jana Falsdóttir úr Njarðvík, og munu þær spila sitthvorn leikinn. Ísold spilar fyrri leikinn ytra og Jana seinni leikinn hér heima.
Tveir leikmenn sem valdir voru nú gátu ekki tekið þátt að þessu sinni. Sara Rún Hinriksdóttir sem leikur með AE Sedis Bàsquet á Spáni er frá vegna meiðsla og Hildur Björg Kjartansdóttir gat ekki gefið kost á sér að þessu sinni. Helena Sverrisdóttir snýr aftur í landsliðið en hún hefur einnig verið frá vegna meiðsla en hún er landsleikjahæsti leikmaður liðsins og mun verða landsleikjahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi eftir leikinn gegn Rúmeníu.
Eftirtaldir leikmenn skipa landsliðshópin í nóvember:
(Nafn · félag · landsleikir)
Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík · 8
Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur · 12
Birna Valgerður Benónýsdóttir · Keflavík · 9
Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur · 18
Emelía Ósk Gunnarsdóttir · Keflavík · 13
Helena Sverrisdóttir · Haukar · 79
Isabella Ósk Sigurðardóttir · Panserraikos Serres, Grikklandi · 12
Ísold Sævarsdóttir · Stjarnan · nýliði
Jana Falsdóttir · Njarðvík · nýliði
Sara Líf Boama · Valur · 2
Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík · 18
Tinna Guðrún Alexandersdóttir · Haukar · 4
Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar · 31