Fimm stiga forskot Njarðvíkinga
Topplið Njarðvíkur í 2. deild karla í knattspyrnu lagði Selfoss 2-0 í gærkvöldi á Njarðvíkurvelli. Sem fyrr eru þeir grænklæddu á toppi deildarinnar og eru nú komnir með 5 stiga forskot á Fjarðarbyggð sem er í 2. sæti en Fjarðarbyggð á leik til góða og getur aftur minnkað muninn í tvö stig með sigri.
Hart var barist á Njarðvíkurvelli og komu gestirnir grimmir til leiks. Eyþór Guðnason, sem hrökk í gang fyrir skemmstu, gerði hins vegar fyrsta mark leiksins á 38. mínútu og kom Njarðvíkingum í 1-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Njarðvíkingar bættu við öðru marki á 66. mínútu en þar var Sverrir Þór Sverrisson sem skoraði með skoti sem markvörður Selfyssinga náði ekki að halda og inn fór boltinn. Það var því sanngjarn Njarðvíkursigur í gær sem gaf þrjú stig.
Næsti leikur Njarðvíkinga er þriðjudaginn 1. ágúst þegar þeir fá Völsunga í heimsókn.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ [email protected]