Fimm landsliðsmenn frá NES
Næstkomandi mánudag, 29.júlí, heldur af stað um 20 manna hópur (15 keppendur og 5 fararstjórar) á leið til Danmerkur, nánar tiltekið í Blavandshuk Kursus og Idrætscenter í Oksbøl sem er á Jótlandi í Danmörku skammt frá Billund. Tilefnið er norrænt barna- og unglingamót fatlaðra og stendur yfir frá 29.júlí-3.ágúst næstkomandi, en mótið er haldið annað hvert ár. Síðast var það haldið sumarið 2011 í Finnlandi. Íþróttasamband fatlaðra á Íslandi (ÍF) sendir 15 ungmenni sem verða fulltrúar Íslands á mótinu að þessu sinni.
Af þessum 15 ungmennum sem voru valin í þetta landsliðsverkefni eru fimm þeirra frá Suðurnesjum og æfa þar sund og frjálsar með NES, íþróttafélagi fatlaðra á Suðurnesjum. Þessir einstaklingar frá Suðurnesjum eru þau; Már Gunnarsson, Róbert Salvar Reynisson, Ástrós María Bjarnadóttir, Ari Ægisson og Bjarki Guðnason. Á mótinu mun þessi hópur keppa í frjálsum og sundi. Aldrei áður hefur NES haft svona marga keppendur á þessu móti. NES lýtur á þetta sem mikinn heiður og er ákaflega stolt af þessum iðkendum sem hafa sýnt miklar framfarir undanfarið ár. Það verður gaman að fylgjast með þessum duglegu krökkum í framtíðinni gera góða hluti.